„Það er þyngra en tárum taki að Íslendingar skuli hafa verið þátttakendur í þessu stríði. Að Íslendingar skuli hafa stuðlað að því að börn og unglingar voru strádrepin með vopnum sem Íslendingar fluttu,“ sagði Birgir Þórarinsson Miðflokki á Alþingi fyrir skömmu, um vopnaflutning Air Atlanta til Jemen.
Hann sagði að undir merkjum litla friðsæla Íslands, undir fána Íslands streymdu vopn í hendur villimanna sem drepa saklausa borgara eins og að drekka vatn. „Tuttugu og fimm ferðir á stórri vöruflutningavél, ekki með hjálpargögn, ekki með mat og lyf, ekki til að bjarga mannslífum, ferðir til þess að drepa fleiri. Ferðir með 170 þúsund jarðsprengjur, 2000 eldflaugavörpur, 850 þúsund skotfæri, 850 vélbyssur.“
„Þetta er stórkostlegt hneyksli. Alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hunsaðar, samningar brotnir. Það þýðir ekkert að drekka kokteila í New York, skrifa undir samninga og henda þeim svo í ruslið. Hvað er þetta fólk eiginlega að gera sem á að sjá til þess að við uppfyllum skuldbindingar okkar?“
Að lokum sagði Birgir: „Nú er tími til kominn, svona einu sinni á Íslandi, að þeir sem heimiluðu þennan flutning undir íslenskum fána, embættismenn, stjórnmálamenn, verði látnir sæta ábyrgð. Orðstír Íslands hefur beðið hnekki.“