- Advertisement -

Kominn fótgangandi til Egilsstaða

Gönguferðir mínar frá áramótum eru orðnar nokkrar. Alls er ég búinn að ganga 654 kílómetra. Vegalengdin frá Reykjavík til Egilsstaða, það er ef farin er norðurleiðin, er 652 kílómetrar. Göngur mínar frá áramótum jafngilda því vegalengdinni til Egilsstaða.

Þetta er alveg ágætt. Fyrir fáum dögum hitti ég Sævar Gunnarsson, sem lengi var formaður Sjómannasambandsins. Sævar er vel á sig kominn. Hreystin leyndi sér ekki. Sævar hefur gengið yfir 1.100 kílómetra frá áramótum.

Á þessum tíma hef ég lést nokkuð, eða rétt um sautján kíló. Ég held að ég brjóti ekki nokkurn trúnað þó ég segi frá því að Sævar hefur á þremur eða fjórum árum lést um 30 kíló.

Göngur eru frábær heilsurækt. Kosta ekkert annað en búnaðinn. Í mínu tilfelli, og ég held að sama gildi um Sævar, þá eru allar göngurnar farnar að heiman, þannig að bíll kemur aldrei við sögu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Læknir sagði eitt sinn við mig, að léttast um 250 grömm á viku er frábært. Kíló á mánuði sagði hann, eða tíu kíló á ári. Eru það ekki tólf, spurði ég. Nei, það léttist enginn um jól eða í sumarfríinu. Þetta er alveg satt. Á tveimur árum eru það tuttugu kíló. Það munar um minna.

Fyrir það fólk sem er að hugsa sig um, segi ég bara; áfram gakk.

Sigurjón M. Egilsson.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: