Þórður Snær Júlíusson skrifaði þetta, meðal annars, um valdabaráttuna í Sjálfstæðisflokki:
„Það er greinilegt og skýrt ákall til staðar víða um endurnýjun á forystufólki og áherslum. Að margir flokksmenn telji Sjálfstæðisflokkinn vera búin að týna kjarna þess sem þeir telja vera hina einu sönnu, og hreinu, Sjálfstæðisstefnu. Stefnu sem er reyndar túlkuð á afar mismunandi hátt hjá ólíkum hópum innan flokksins.
Auk Þórdísar Kolbrúnar má reikna með því að Guðlaugur Þór, sem er með mikil ítök í grasrótarfélögum í Reykjavík, reyni aftur. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, með afl Morgunblaðsins á bakvið sig, hefur sagt fólki í kringum sig að hún ætli sennilega fram og Guðrún Hafsteinsdóttir er talin vera að kanna stuðning við sig. Vitað er að áhrifahópar innan flokksins séu líka að líta út fyrir raðir kjörinna fulltrúa í leit að svörtum hesti og bollaleggingar hafa verið um Halldór Benjamín Þorbergsson og jafnvel Stefán Einar Stefánsson sem kandídata í þeim efnum. Slík framboð eru þó flókin þar sem erfitt myndi reynast að vera leiðtogi stjórnmálaflokks án þess að vera með þingsæti, sérstaklega þar sem kjörtímabilið er nýhafið.
Hinn raunverulegi tilgangur þess að fresta landsfundi er augljóslega sá að kaupa tíma svo hægt sé að koma í veg fyrir að Guðlaugur Þór eigi upptakt að farsælu formannsframboði, fækka öðrum frambjóðendum og krýna þann eftirmann sem Bjarni og hans fólk vill. Það ætti að skýrast á allra næstu dögum hvort það takist eða hvort óánægjan hjá stórum hópum innan flokks sé orðin svo mikil að að hún nái að sjóða upp úr pottinum.“