„Ungt fólk sem er að koma inn á fasteignamarkaðinn núna er í hættu á að tapa stórum hluta af innborguninni ef verðbólgan helst óbreytt og fasteignaverð lækkar áfram,“ segir Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreiningar hjá Deloitte, í forsíðufrétt Fréttablaðsins. Þetta er nánast sturlun.
Ýmir segir þar að fólk þurfi að vera meðvitað um áhættu sem fylgi því að fjármagna húsnæðiskaup með verðtryggðum lánum því verðbólgan hækki höfuðstólinn. En ekki eru margir kostir í boði. Afborganir af óverðtryggðum eru svo himinháar að allur almenningur á fáa kosti og alla vonda. Ekki er leigumarkaðurinn betri.
Í fréttinni er sagt að á fimm mánuðum fram til janúar á þessu ári hafi verð á íbúðum minni en 80 fermetra á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 5 prósent. Þetta megi lesa úr fasteignamælaborði Deloitte.
„Áður en ungt fólk fer að fjárfesta í sinni fyrstu eign ætti það að staldra við og reikna dæmið undir mismunandi sviðsmyndum. Þar skiptir miklu þróun fasteignaverðs og þróun verðbólgu næstu misseri.“
„Í slíkri sviðsmynd gæti verið dregið fram hvernig „svartsýn“ niðurstaða liti út.“ Einmitt. Eina ráð stjórnvalda er að Seðlabankinn herði skrúfuna enn fastar.
„Í henni gætum við gert ráð fyrir að á næstu 12 mánuðum muni verðbólga haldast í 9,6 prósentum og fasteignaverð lítilla íbúða á höfuðborgarsvæðinu lækka um 8 prósent,“ heldur Ýmir áfram í frétt Fréttablaðsins.
„Sé tekið dæmi um kaup á íbúð á höfuðborgarsvæðinu sem keypt væri í dag á 50 milljónir króna með verðtryggðu láni með hámarkslánshlutfalli fyrir fyrstu kaupendur þá væri innborgun upp á 7,3 milljónir króna nánast horfin eftir eitt ár.“
„Margir geta ekki staðið undir greiðslubyrði óverðtryggðra lána eða komast ekki í gegnum greiðslumat með núverandi vexti og neyðast því til að taka verðtryggð lán.“
Dæmið hér að framan er að sögn Ýmis vissulega svartsýn spá.
„Við viljum samt hvetja ungt fólk til að reikna dæmið til enda og velta fyrir sér hvaða möguleikar og fjármögnunarleiðir henti þeim í núverandi umhverfi,“ segir í hinni kolsvörtu forsíðufrétt Fréttablaðsins.