„Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er kolsvört. Um það verður ekki deilt. Borgin hefur safnað skuldum undanfarið eins og enginn sé morgundagurinn. Veltufé frá rekstri er nú einungis um fjórðungur þess sem það þyrfti að vera til að reksturinn væri í þokkalegu jafnvægi,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir, Flokko fólksins, á fundi borgarráðs.
„Skammtímaskuldir eru í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hærri en handbært lausafé, sem er ávísun á aukningu dráttarvaxta. Á tímabilinu 2021-2023 virðist sem aukning langtímaskulda sé að jafnaði um einn ma.kr. á mánuði. Þungi afborgana af langtímaskuldum mun vaxa verulega á árunum 2021-2023. Talið er að fjármálin færist hratt til betri vegar eftir tvö ár eða svo. Á hvaða forsendum byggja t.d. áætlanir um fimmföldun veltufjár frá rekstri við lok tímabilsins hjá A-hluta? Athygli vekur að á sama tíma mun lausafjárstaða A-hluta versna og afborganir langtímaskulda meira en tvöfaldast. Langtímaskuldir vaxa ár frá ári. Mikilvægt er að fyrir liggi hverjar eru forsendur fyrirhugaðrar endurreisnar á fjármálum A-hluta borgarsjóðs. Framundan eru stór og fjárfrek fjárfestingarverkefni. Þess er vænst að verkefni sem eru nauðsynleg til að viðhalda þjónustu verði sett í forgang en að önnur fái að bíða.“