„Ljóst er að aðgerðir hér á landi við COVID bitna mjög illa á fjölmörgum. Á sama tíma eru nær engar umræður á þingi um þær. Sjálfsagt ætti að vera að þingmenn standi í lappirnar í umræðu um COVIDaðgerðir. Því miður gera þeir það fæstir. Sumir samt, enda er nú svo komið að ástæða er til að þakka almættinu fyrir tilvist Sigríðar Á. Andersen,“ þannig endar Kolbrún Bergþórsdóttir leiðara sinn í Fréttablaðinu í dag.
Kolbrún er gagnrýnin á að sóttvarnaraðgerðir og segir: „Sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórn geta ekki horft fram hjá því að aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa valdið margvíslegum skaða. Þau verða að þola gagnrýni og ættu reyndar að taka henni vel en hlaupa ekki sjálfkrafa í vörn. Þau ættu einmitt að spyrja sig hvort það geti verið að aðgerðir séu of harkalegar og vera opin fyrir sjónarmiðum sem falla ekki alls kostar að þeirra eigin skoðunum. Þríeykið er ekki heilagt og óskeikult og svo sannarlega er ríkisstjórnin það ekki heldur.“