- Advertisement -

„Kolkrabbinn kominn á fætur“

Viðtal frá því snemma árs 2008 við þingmanninn og stjórnarformanninn Bjarna Benediktsson. Einnig er fjallað um versnandi hag fyrirtækja og banka og þær hættur sem vofðu yfir. Spáð er um framtíð helstu fjárfesta þess tíma.

Snemma árs 2008 tók ég við ritstjórn Mannlífs, sem var þá fréttatímarit. Eitt fyrsta viðtalið sem ég tók fyrir blaðið var við Bjarna Benediktsson, sem þá var alþingismaður sem og stór þátttakandi í viðskiptalífinu, með misgóðum árangri eins og nú ervitað,en ekki þá.

Í lok greinarinnar er spáð fyrir um stöðu einstakra fjárfesta snemma árs 2007 og hver framtíð þeirra gæti orðið. Eitthvað rættist og annað alls ekki.

Þá er það viðtalið, eða réttara sagt umfjöllunin, þar sem fjallað er um fleira en Bjarna Benediktsson.

-sme

Þú gætir haft áhuga á þessum

Breytt staða fjárfesta er afleiðing af djúpri dýfu á fjármálamarkaði, hér og erlendis. Margir þeirra sem hafa verið hvað mest áberandi á undangengnum árum og baðað sig í velgengni róa nú lífróður. Ekki munu allir ná til lands og frétta af uppgjöf og gjaldþrotum er að vænta.

Meðan einstaka fjárfestar eiga í verulegum vanda eru aðrir sem hafa fjárfest með öðrum hætti. Þeirra á meðal eru Engeyingar, en þar fara fremstir bræðurnir Benedikt og Einar Sveinssynir og Bjarni, alþingismaður og sonur Benedikts. Karl Wernersson hefur einnig styrkst verulega að undanförnu og er jafnvel sá Íslendingur sem hefur hvað mestu getuna til fjárfestinga.

Engeyingarnir keyptu N1 með lánum frá bankanum þeirra.

Engeyingarnir, sem voru hluti Kolkrabbans, eru sagðir varfærnir, íhaldssamir í fjárfestingum og það skili sér núna. „Ég vil ekki andmæla því og er sáttur við að við séum metnir þannig. Það er samt ekki langt síðan við vorum í talsverðri áhættu. Eign okkar í Glitni var t.d. að hluta skuldsett. Kaupin á Olíufélaginu voru líka skuldsett en ég er mjög rólegur yfir því,“ segir Bjarni Benediktsson.

Þeir sem hafa farið hraðar eru margir hverjir í verulegum vanda, enda er lækkun á verðgildi fyrirtækja í Kauphöllinni að nálgast 500 milljarða bara frá áramótum. Þeir fjárfestar sem hafa skuldsett sig mikið við kaup á hlutabréfum horfa fram á verulegan vanda. „Nei, ég vil ekkert ræða þetta,“ sagði Kristinn Björnsson, en hann er meðal þeirra sem er sagður í hvað mestum vanda um þessar mundir og þó Kristinn vilji ekki tala, er allt sem bendir til þess að hann dragi verulega saman í fjárfestingum og verði seint eða aldrei eins fyrirferðamikill og hann hefur verið.

Kolkrabbinn upprisinn/ Það eiga þeir sameiginlegt Kristinn Björnsson og Bjarni Benediktsson að eiga rætur að rekja til Kolkrabbans, sem var mesta viðskiptaveldi hér á landi í langan tíma. Þó að Kolkrabbinn hafi aldrei verið til sem slíkur lágu þræðir hans víða. Ekki er langt síðan Kolkrabbinn var sagður dauður og hann kæmi ekki aftur. Bjarni Benediktsson brosir þegar þetta er rifjað upp.

Sem fyrr segir er staða Kristins Björnssonar slæm. Hann hefur farið með fjárfestingar fyrir ættmenni sín og sökum þess hvernig komið er blandast saman í hans vanda fjárhagslegt tap og tilfinningalegt. Öðru máli gegnir um Engeyingana.

Er rétt að þið séuð meðal þeirra sem sterkastir eru og líklegastir til að láta að ykkur kveða á næstunni?

„Ég á erfitt með að bera okkur saman við aðra en ég er ánægður með það hvernig til hefur tekist síðasta árið. Þessi órói á mörkuðunum er síðan alvarlegt mál fyrir alla. Þetta hittir okkur ekki illa því við erum vel fjármagnaðir til langs tíma en á endanum tapa hins vegar allir á svona ástandi,“ segir Bjarni Benediktsson.

Ykkar staða er sögð sterk og að þið hafið minnkað mestu áhættuna á réttum tíma.

„Það getur verið erfitt að meta virði óskráðra félaga þegar órói er á mörkuðum og því kannski erfitt að segja nákvæmlega um okkar stöðu. En við erum sáttir við það sem við höfum gert. Það á bæði við um kaupin á Olíufélaginu og á hlutnum í Icleandair. Bæði eru þau í traustum rekstri og hafa skilað ágætri afkomu síðustu ár. Icelandair er vissulega í áhættusömum rekstri en það hefur gengið ágætlega að stýra þeirra áhættu. Þetta er vel rekið félagið með mikla möguleika. Þegar við vorum að velta kaupum á Olíufélaginu fyrir okkur vorum við vissir um að með samruna Bílanausts við Olíufélagið væru miklir möguleikar til að samþætta þjónustu við bíleigendur. Þegar til kastanna kom sýnist mér að við höfum vanmetið þau tækifæri sem lágu í hugmyndinni. N1 hefur gengið framar vonum,“ segir Bjarni.

Bjarni: „Varðandi skilyrðin almennt undanfarið þá hafa menn staðið frammi fyrir tveimur slæmum kostum varðandi fjármögnun, báðir eru vondir að mínu mati.“

Tveir vondir kostir/ Það helst í hendur að verðfall er á hlutabréfum og fjármögnun er dýrari en áður.  Stýrivextir eru allt of háir og horft er ákveðnar til Seðlabankans en áður í von um að breytingar verði á. Peningar kosta of mikið.

„Ég lít á það sem forgangsatriði hjá okkur að lækka vexti. Gera verður hvað eina sem þarf til að skapa svigrúm fyrir vaxtalækkun. Það er líka mikilvægt á óvissutímum að það komi skýrar línur frá stjórnvöldum um þær aðgerðir sem gripið verður til, til að stýra okkur út úr aðsteðjandi vanda. Það er ekkert öðruvísi hér en annars staðar, við sjáum t.d. hvað stjórnvöld í Bandaríkjunum eru mikið í umræðunni vegna viðbragða við undirmálslánavandanum,“ segir Bjarni.

„Varðandi skilyrðin almennt undanfarið þá hafa menn staðið frammi fyrir tveimur slæmum kostum varðandi fjármögnun, báðir eru vondir að mínu mati. Annar er að taka lán í íslenskum krónum, hinn að taka erlend lán sem flestir taka í myntkörfulánum. Vextir á íslenskar krónur hafa verið það háir að enginn rekstur stendur undir þeim til lengdar. Miðað við þá ávöxtunarkröfu sem lífeyrissjóðirnir gera núna sýnist mér að fyrirtækjum bjóðist skuldabréfafjármögnun á bilinu 8-9%, verðtryggð. Það er ekki álitlegt. Hinn kosturinn, og það er sá kostur sem flestir hafa verið að velja, er að taka erlend lán.  Vandinn er sá að þegar tekjurnar eru í íslenskum krónum fylgir þessu of mikil gengisáhætta. Umhverfið hefur því á ýmsan hátt verið óhagstætt,“ segir Bjarni.

Staða manna er ólík og segja viðmælendur Mannlífs að þeir sem eigi peninga og hafi kjark geti hagnast í því umhverfi sem nú er. Háir vextir draga úr þörfinni á fjárfestingum þar sem góð og örugg ávöxtun fæst með því að geyma peninga. Viðmælendur Mannlífs meta það sem svo að hér séu til á annað hundrað milljarðar króna, sem í raun eru á hliðarlínunni og leitað verði tækifæra með þá peninga. Ef ekki rofar til hér heima er allt eins talið að peningarnir verði fluttir úr landi og fjárfest annars staðar.

Bjarni 2008: „Annars er engin ástæða til að ætla að fjárfestingar séu arðbærari erlendis en hér á landi.“

Bjarni Benediktsson er ekki eins sannfærður um þetta. „Ég sé svo sem enga sérstaka ástæðu fyrir menn að fara til útlanda við núverandi skilyrði. Að mínu mati er það fyrst og fremst lausafjárvandinn sem kemur í veg fyrir að líf verði í fjárfestingum á næstunni. Það er takmarkað lánsfé til staðar til að klára fjármögnun á stærri kaupum. Á meðan það skortir lánsfé og óvissa ríkir á mörkuðum dregur einfaldlega úr fjárfestingum. Bæði hér heima og erlendis. Annars er engin ástæða til að ætla að fjárfestingar séu arðbærari erlendis en hér á landi. Hins vegar eru takmörk fyrir því hve mörg tækifæri bjóðast hér heima. Það gerir smæð markaðarins.“

Hvað sem gerist, er ljóst að það eru til miklir peningar og Engeyingarnir, hluti Kolkrabbans, eru meðal þeirra sem beðið er eftir að láti til sín taka.

„Þessi tala sem þú nefnir er of há og við erum ekki að hugsa um neinar fjárfestingar á þessu stigi heldur fyrst og fremst að reka þau félög sem við tökum þátt í. Held að það hafi reyndar alltaf verið þannig að menn hafi fjárfest þar sem þeir telji best að gera það.  Undanfarin ár hafa menn í ríkari mæli farið yfir landamæri í þessum tilgangi.“

Kreppa eða ekki kreppa/ „Það er raunveruleg hætta á kreppu,“ sagði einn af viðmælendum Mannlífs. Það er að hægja á öllu og ef heldur áfram sem horfir mun skuldlaus ríkissjóður verða fljótt skuldum vafinn eigi að nota hann til að bjarga því sem hugsanlega bjargað verður. Fari svo að bankarnir hverfi á braut er ljóst að hér verða átakamiklar breytingar.

„Það er niðursveifla og hún verður. Rekstrarumhverfi banka og ríkissjóðs er sífellt verra. Það er ekki hægt að tuða hér heima hvort heimila eigi bönkum að gera upp í evrum eða ekki. Allir verða að vakna og fara á fætur. Hér verðum við að gera allt til að verjast og til að standa af okkur áfallið. Eitt af því sem við getum gert er að hætta takmörkunum og því að gera bönkum og öðrum erfiðara fyrir með þessari vitleysu að koma í veg fyrir að reikningar verði færðir í evrum,“ sagði einn viðmælendanna.

„Það er klárt að við þurfum að koma í veg fyrir að hér verði harkalegur samdráttur í hagkerfinu,“ segir Bjarni Benediktsson. „En verði samdráttur hér má minna á að íslenska hagkerfið hefur sýnt sig að vera mjög sveigjanlegt. Það gefur okkur vonir um að geta risið tiltölulega hratt upp úr slíku. Við höfum auðvitað verið á ótrúlegu flugi undanfarin ár og kaupmáttur hefur vaxið gríðarlega síðastliðinn rúman áratug. Við þurfum ef til vill að koma aðeins niður á jörðina núna og gera okkur grein fyrir því að svona getur þetta ekki alltaf gengið.“

„Við skulum muna að á undanförnum árum hefur okkur gengið sérstaklega vel. Það sést á öllum helstu mælikvörðum.“

Stjórnvöld eru gagnrýnd, jafnvel fyrir aðgerðarleysi.

„Já, menn verða að þola gagnrýni, hún er hluti leiksins. Við skulum muna að á undanförnum árum hefur okkur gengið sérstaklega vel. Það sést á öllum helstu mælikvörðum. Fjárlög yfirstandandi árs bera einnig sterkri stöðu gott vitni. Það er líka mikilvægt að við höfum notað árangurinn til að styrkja stöðuna ef á þyrfti að halda í framtíðinni. Ríkissjóður er nær skuldlaus og getan til að bregðast við erfiðum aðstæðum hefur aldrei verið meiri. Varðandi ástandið núna þá sjá það allir að við erum hér að stórum hluta til að glíma við alþjóðlegan vanda, lausafjárkreppu, sem íslensk stjórnvöld geta ekki svo auðveldlega haft áhrif á.“

Stjórnvöld eru sögð jafnvel flækjast fyrir, til dæmis með takmörkunum á fyrirtæki með að gera upp reikninga í erlendri mynt.

„Ég hallast að því að heimildir til uppgjöra í erlendum myntum eigi að vera rúmar. Ég tel reyndar almennt að við þurfum að leggja okkur sérstaklega fram til að hafa hér sveigjanlegt umhverfi og aðlaðandi fyrir þau fyrirtæki sem hér eru og þau sem kunna að vilja koma hingað. Við höfum í lögum heimildir til að gera upp í evrum og ég treysti stjórnvöldum vel til að túlka þær. Ef í ljós kemur að þær heimildir reynast of þröngar þarf einfaldlega að breyta þeim. Það þýðir ekki að evruskráningu eigi að heimila án skilyrða.“

Bankar í þröng/ Ef ekki tekst að vekja tiltrú erlendis á rekstri íslenskra banka getur það haft verulega slæmar afleiðingar. Endurfjármögnun þeirra getur orðið of dýr sem getur þá leitt til breytinga á eignarhaldi, að erlendir bankar, skandanavískir eða evrópskir, jafnvel kínverskir, eignist þá og eftir þrjú til fjögur ár verði hér ekki neinn stór banki, einungis minni bankar. Vegna þessa er ljóst að enginn á fjármálamarkaði hér heima hefur efni á að hafa ekki áhyggjur af gengi annarra og sennilegast er að menn snúi bökum saman, jafnvel þeir sem ekki hefur verið sérlega kært með hingað til. Þegar er rætt um sameiningu banka, svo sem að Straumur renni inn í Landsbankann, SPRON í Kaupþing og svo eru áhöld uppi um hvort líklegra sé að Glitnir sameinist Landsbanka eða Kaupþingi. Rætist ekki úr og allt þróast á versta veg verður eitthvað af þessu: Bankar sameinast eða falla í hendur erlendra banka eða auðmanna. Það hefði verulegar afleiðingar hér heima.

Íslensku bankarnir eru þrátt fyrir allt það litlir að staða þeirra verður erfiðari eftir því sem harðar verður barist um lánsfé og hætta er á að þeirra endurfjármögnun verði dýrari en annarra banka. Eitt af því sem gerir íslensku viðskiptabönkunum erfitt fyrir er að þá vantar húsnæðislánin í sitt lánasafn. Viðmælendur Mannlífs eru sammála um að ríkisbanki sem Íbúðalánasjóður, skekki samkeppnisstöðu viðskiptabankanna erlendis. Þó að bankarnir hafi ekki miklar tekjur af íbúðalánum þá eru þau trygg og að baki þeim eru bestu veð. Þess vegna eru þannig lán mikils metin þegar bankarnir eru vegnir og metnir. Langtum meiri hætta er á að viðskiptalán tapist en húsnæðislán.

Meðan samkeppnin var sem grimmust í húsnæðislánum fóru vextir lægst í 4,15 prósent. Þegar bankarnir hafa endurfjármagnað þau lán er ljóst að þau kosta bankana meira. Vaxtaálag á bankana hér er orðið það hátt. Trúlega er tap bankanna af þeim lánum eitt prósent, ef ekki meira.

Bölsýnustu menn segja að endurfjármögnun bankanna verði svo erfið að þeir kunni að fara úr landi og Íslendingar missi forræði yfir þeim.

„Dýr endurfjármögnun bitnar ekki bara á bönkunum, heldur öllu hagkerfinu. Það er mikið hagsmunamál að þetta lagist. Ég hef alla trú á því að það muni gerast, en spurningin er kannski frekar sú hversu langan tíma það taki. Í því efni er alveg sama hvað talað er við marga, engir tveir meta þetta eins. Það á reyndar bæði við um hversu djúp lægðin verður og hverjar afleiðingarnar verða. Við höfum gríðarlega hagsmuni af því að hér verði áfram blómlegt fjármálalíf og við eigum að vinna áfram með hugmyndir um að skapa hér alþjóðlega fjármálamiðstöð. Ég er sannfærður um að við komum standandi út úr þeim óróa sem nú er og að fjármálastarfsemi verði áfram ein af burðarstoðunum í íslensku efnahagslífi,“ segir Bjarni Benediktsson.

50 milljarða demparar/ Viðskiptabankarnir þrír, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, búa sig undir að mæta áföllum vegna útlána. Eftir þriðja ársfjórðung í fyrra áttu bankarnir þrír um fimmtíu milljarða á afskriftarreikningum, handbæra peninga til að mæta hugsanlegum áföllum vegna útlána.

„Bankarnir leggja peninga stöðugt á áskriftareikninga. Það er gert í takt við lánasafnið á hverjum tíma,“ sagði Sigurjón Árnason, annar tveggja bankastjóra Landsbankans.

Landsbankinn var með um tuttugu milljarða til að mæta vandamálum, Kaupþing svipað og Glitnir nokkru minna, ellefu til tólf milljarða.

Sigurjón segir það ráðast af mörgu hversu öflugir afskriftasjóðirnir þurfi að vera. Það ráðist þó fyrst fremst af aðstæðum hverju sinni. „Þegar aðstæður eru góðar reynir lítið á sjóðina og öfugt, þegar aðstæður eru erfiðar. Nú eru útlánin ekki bara á Íslandi þannig að taka verður mið af mörgu þegar hugað er að sjóðunum.“

Miklar breytingar hafa orðið á umsvifum viðskiptabankanna á allra síðustu árum. Fyrir fimm árum var eigið fé Landsbankans sextán til sautján milljarðar en nú á bankinn nokkuð hærri fjárhæð til að mæta hugsanlegum áföllum vegna tapaðra útlána.

Áður voru fimm prósent í vanskilum, en nú er það miklu lægra hlutfall.

Bjarni 2008:
„Ég tel einnig að við getum með ákveðnum aðgerðum laðað fleiri fyrirtæki hingað til lands.“

Lægri skatta/ Ekki eru allir sammála um hvað ber að gera til að efla íslenskan fjármálamarkað. Þó ríkissjóður standi vel er ekki hægt að treysta á að hann bjargi einn og sér því sem bjargað verður. Bjarni Benediktsson veit hvað hann vill.

„Ég tel einnig að við getum með ákveðnum aðgerðum laðað fleiri fyrirtæki hingað til lands. Opið gegnsætt regluverk, sveigjanleg og hröð stjórnsýsla, samkeppnishæft skattkerfi, aðgangur að vel menntuðu fólki; allt skiptir þetta máli. Lítum til Írlands, þeir gerðu ýmislegt, sérstaklega á skattasviðinu, til að draga til sín fjárfestingar með mjög góðum árangri. Við eigum að skoða alla möguleika með opnum huga. Í dag dugir ekki að gera jafnvel og hinir, við þurfum að gera betur. Að mínu mati var það tímamótaákvörðun þegar tekjuskattur fyrirtækja var lækkaðir í átján prósent og sýndi vilja til að skapa hér afburðaskilyrði. Ég vil sjá skatta lægsta hér í Evrópu.“

Krónan er gagnrýnd og ekki síður takmarkanir fyrirtækja til að gera upp sína reikninga í erlendri mynt, helst evru.

„Varðandi gjaldmiðilinn finnst mér margur hafa alltof léttilega skautað yfir það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Verkefnið er ekki það, hvernig við getum fundið annan sterkari gjaldmiðil. Í dag stöndum við frammi fyrir því hvernig við getum náð niður vöxtum, jafnvægi í efnhagslífinu og haldið verðbólgunni í skefjum. Þetta verður að koma á undan umræðunni um hvað verður um krónuna. Henni verður hvort eð er ekki skipt út í þessu ástandi. Það er ekki fyrr en við höfum náð tökum á stöðunni sem við getum farið að velta fyrir okkur valkostum í gjaldeyrismálum. Margir þeirra sem hafa baðað sig í þeirri athygli sem evran hefur fengið hafa gert það vegna þess að þeir þora ekki að fjalla um hitt. Það getur þurft að taka erfiðar ákvarðanir til að koma jafnvægi aftur á í efnahagslífinu og menn verða að hafa kjark til þess. Menn þurfa að þora að draga úr væntingum fólks um kaupmáttaraukningu ef aðstæður eru þannig. Mér finnst of fáir átta sig á því að nú þarf aðeins að slaka á væntingunum.“

Krónan er ekki eilíf, er það?

„Það er ekkert augljóst í því. Það reynir mjög á kosti þess og galla að vera með fljótandi gjaldmiðil þessi misserin. Í augnablikinu er þetta ekki þrautalaust en fram að þessu hefur okkur vegnað vel. Það kann að vera að þær breytingar hafi orðið í alþjóðlegu samhengi að það sé of erfitt að vera með sjálfstæðan fljótandi gjaldmiðil. Ég skal ekki útiloka neitt í því samhengi. En það er ekki töfralausn að henda gjaldmiðlinum. Aðalviðfangsefnið núna er að stilla saman aðgerðir á forsendum þess að við erum með krónu. Verkefnið er ekki að finna leið frá gjaldmiðlinum heldur að finna leiðir með honum.“

Engeyingarnir

Fremstir í flokki Engeyinganna eru bræðurnir Einar og Benedikt Sveinssynir og Bjarni, alþingismaður og sonur Benedikts. Eftir átök um stóran hluta í Glitni seldu þeir FL Group mestan sinn hluta í Glitni. Lætur nærri að verulegur hluti þess sem þeir seldu hafi allt að fjórfaldast í verði.

Viðmælendur Mannlífs telja ekki útilokað að þeir hafi möguleika til að fjárfesta fyrir allt að fimmtíu milljarða króna. „Þeir keyptu á réttum tíma, og þeir seldu á réttum tíma,“ segir einn viðmælanda Mannlífs.

Hannes Smárason

Það er bratti fram undan hjá Hannesi Smárasyni. Það eru allir vissir um. Hann fór hratt og fjárfesti mikið og eigið fé var aldrei það mikið að Hannes gæti staðið af sér óveður. Sú virðist ætla að verða raunin. Landsbankinn sækir á Hannes og aðeins er spurt um hversu illa hann fari út úr fjárfestingunum. Viðmælendur Mannlífs eru á því að eigi hann afturkvæmt í fjárfestingar verði það ekki nærri strax.

Karl Wernersson

Karl Wernersson er öflugur og er að sumum talinn einn allra öflugasti fjárfestir um þessar mundir. Fullyrt er að hann hafi verið kjarkaður þegar hann fjárfesti í Glitni, þá Íslandsbanka. Hann veðsetti öll sín bréf bæði í bankanum og eins í Actavis. Fullyrt er að hann hafi, líkt og Engeyingar, selt á góðum tíma. FL Group keypti mestan hluta Karls á gengi rétt undir þrjátíu en Karl mun hafa keypt meginþorrann á mun lægra gengi, innan við átta.

Húsasmiðjubræður

Bræðurnir, Jón og Sturla Snorrasynir, hafa hagnast vel eftir að þeir seldu Húsasmiðjuna. Þeir fjárfestu í Glitni og líkt og Karl Wernersson og Engeyingarnir seldu þeir á fínum tíma og högnuðust verulega. Þeir eru sagðir í startholunum og tilbúnir til fjárfestinga, hér heima eða erlendis.

Jón Ásgeir

Jón Ásgeir Jóhannesson er sá fjárfestir sem einna mest hefur borið á á síðustu árum. Viðmælendur Mannlífs segja ekkert benda til þess að hann standi ekki af sér niðursveifluna. „Verði langvarandi samdráttur í Englandi er hætta á að hann komi til með að lenda í vanda. Hann er skuldugur og þess vegna mun hann finna fyrir ef samdrátturinn verður viðvarandi,“ sagði einn viðmælandi okkar. Baugsmenn bera sig vel og segja góða ábata af rekstri strærstu fyrirtækjanna í Englandi. Staðan Jóns er samkvæmt því með ágætum.

Öðru máli virðist gegna um þá sem hafa fjárfest með Jóni Ásgeiri. Talið er víst að Magnús Ármann, Hannes Smárason, sem áður var minnst á, Þorsteinn M. Jónsson og félagarnir, Kristinn Björnsson, Magnús Kristinsson og Þórður Már Jóhannesson, hafi tapað verulega á því að veðja á FL Group. Þeir standa allir höllum fæti. Kristinn er sér kapítuli og verður hans getið hér á eftir. Magnús hefur bakland í útgerð sinni, Bergur-Huginn, í Vestmannaeyjum en það hafa hinir ekki. Þórður Már hafði auðgast með þátttöku sinni í rekstri Straums og öðrum verkum með Kristni og Magnúsi. Hann missir mest af sínu.

Kristinn Björnsson

Kristinn Björnsson á í miklu basli. Hann fór með fjárfestingar fyrir stórfjölskylduna og þegar kom í ljós að hann veðjaði á rangan hest brestur í. Kristinn setti mest alla peningana í Gnúp með Þórði Má og Magnúsi Kristinssyni. Peningarnir hafa tapast og ekki er gert ráð fyrir að Kristinn hafi stöðu til að halda áfram í fjárfestingum og langur tími líði þar til hann komi aftur, geri hann það.

Sennilegast eru kaup fyrirtækis þeirra Kristins, Magnúsar og Þórðar Más í Kaupþingi það sem kemur þeim verst nú. Frá því Gnúpur keypti hefur verð hlutabréfanna nánast hrapað.

Kristinn fékkst ekki til að ræða eigin stöðu og þeirra sem hann hefur unnið fyrir. Ættingjar Kristins eru sagðir honum reiðir vegna þess hvernig til hefur tekist. Eignir sem voru metnar á milljarða eru að engu orðnar.

Björgólfsfeðgar

Björgólfur Thor Björgólfsson er sterkefnaður og þolir langan andblæ. Ekkert bendir til að hann sé í vanda eða verði í það miklum vanda að hann ráði ekki vel við hann.

Björgólfur Guðmundsson hefur ekki tekið mikla áhættu og á því sitt á þurru, eða svo gott sem. Víst er að bankinn hans, Landsbankinn, tapar miklu vegna lána til nokkurra þeirra sem hér hafa verið nefndir. Þetta eru nokkrir milljarðar, segja sumir viðmælenda Mannlífs.

Bakkavararbræður

Þó að Exista hrynji í verðgildi mun það ekki fella þá Bakkavararbræður, Ágúst og Lýð Guðmundssyni. Staða þeirra er sterkari en svo. Það sama á við um þá og alla aðra. Það eru allir að tapa. Þeir standa það af sér.

Pálmi Haraldsson

Pálmi Haraldsson hefur leikið vel, segja viðmælendur Mannlífs og hann mun kannski hægja á sér en samt eru uppi kenningar um að Pálmi nýti sér það ástand sem er og freisti þess að gera góð kaup.

Jón Helgi Guðmundsson

Óvissa er um Jón Helga Guðmundsson. Hann er einna mesti einfarinn, segir viðmælendur Mannlífs. Flestir eru þeirrar skoðunar að hann sé með svo fjölbreyttan rekstur og fjárfestingar að hann fari í gegnum lægðina.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: