Innan Vg er beðið hvað Kolbeinn Óttarsson Proppé hyggst gera. Skorað hefur verið á hann að gefa kost á sér á framboðslista í Reykjavík eftir höggið sem hann fékk í Suðurkjördæmi.
„Ég er hrærður og upp með mér yfir þessum stuðningi, sem felst í áskoruninni,“ segir Kolbeinn í viðtali í Mogganum í dag um áskoranir um að gefa kost á sér í Reykjavík.
„Þarna eru á blaði nöfn sem hafa verið lífið og sálin í Reykjavíkurfélaginu um langa hríð og ég tek mark á því þegar þau segjast telja þetta best fyrir Vg.“
Í Mogganum segir Kolbeinn að auk áskorunarinnar hafa hann fengið fjölda skilaboða og símtala með hvatningu um framboð. Hann segir að sér þyki mjög vænt um það allt, en hann vilji hugsa málið.
„Það er ekkert sjálfgefið að fara úr einu forvali í annað, hafi maður ekki náð tilsettum árangri, fyrir nú utan hitt að það er töluvert fyrirtæki að taka þátt í forvali. Ég hef legið undir feldi um mín mál síðustu daga, en ég kem undan honum og helginni með ákvörðun,“ segir Kolbeinn í Mogganum í dag.