- Advertisement -

Knattspyrnusambandið bregðist við

Sema Erla Serdar:

Það eru því miður ekki nýjar fréttir að kynþáttafordóma sé að finna víða í íslenskri knattspyrnu. Þrátt fyrir að um grafalvarlegan vanda sé að ræða er útlit fyrir að lítið sem ekkert hafi verið gert til þess að sporna gegn kynþáttafordómum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Það hefur orðið til þess að atvikum þar sem leikmenn eða áhorfendur sýna af sér kynþáttafordóma í garð leikmanna fer fjölgandi. Nú síðast sýndi leikmaður KR af sér forkastanlega hegðun þegar hann fór með gróft kynþáttaníð í beinni útsendingu. Þrátt fyrir að leikmaðurinn hafi beðist afsökunar er ekki nóg að láta staðar numið þar. Ummæli leikmannsins sýndu fram á mikinn undirliggjandi vanda og þegar hann segir að „þetta er það sem ég er alltaf að segja“ gefur hann til kynna að kynþáttafordómar hafa fengið að grassera óáreittir innan knattspyrnuhreyfingarinnar um tíma.

Knattspyrnusamband Íslands þarf að taka á þessum málum af festu og ábyrgð. Ef það fylgja því engar afleiðingar að sýna af sér kynþáttafordóma eða aðra fordóma í íslenskri knattspyrnu munu þeir aldrei verða upprættir og því munu fylgja alvarlegar afleiðingar. Knattspyrnusamband Íslands þarf að bregðast við því að kynþáttafordómar fara vaxandi innan hreyfingarinnar með öflugu og heildstæðu forvarnar- og fræðslustarfi til þess að draga úr áframhaldandi þróun og koma í veg fyrir að hann verði óviðráðanlegur. Ef þeim vantar aðstoð eru ég og fleiri til í slaginn með þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: