Gunnar Smári skrifar:
Ég hef ekki oft farið á leiki í ensku úrvalsdeildinni en einu sinni fórum við bræður á West Ham – Manchester United á Upton Park. Þetta var snemmvetrar 2005, á laugardegi og George Best hafði dáið daginn áður, aðeins 59 ára gamall. Áður en blásið var til leiks stilltu liðin sér upp við miðjuna, áhorfendur stóðu upp úr sætum sínum og saman klöppuðum við í eina mínútu fyrir allri þeirri gleði og skemmtun sem George Best hafði gefið okkur sem leikmaður. Þetta finnst mér að mætti gera til heiðurs Atla Eðvaldssyni þegar KR sækir Val heim eftir landsleikjahlé, mánudaginn 16. september. Atli gaf áhangendum þessara liða magnaðar stundir og góðar minningar. Svo má KSÍ auðvitað líka heiðra Atla á heimaleik landsliðsins gegn Moldóvu á laugardaginn, en það er önnur saga og önnur deild.