„Forysta Samtaka atvinnulífsins er veik. Til forystu velst fólk úr fámennum hópi allra stærstu fyrirtækjanna. Mest launþegar án beinna hagsmuna sem eigendur rekstrar og yfirleitt ekki með neina aðra hagsmuni en að ná sem bestri útkomu fyrir sitt fyrirtæki og síðan sjálfa sig. Stoppa stutt við og inn kemur „nýtt“ fólk úr sömu átt. Öllu miðstýrt með uppstillingu. Hagsmunir stórs hluta félagsmanna SA eru fyrir borð bornir í hvert sinn er samið er um kaup og kjör.“
Steinþór Jónsson bakarameistari skrifar svo í Moggagrein í dag. Steinþór er ósáttur við SA. Og það aldeilis. Hann segir Samtökin ávallt hafa hagsmuni þeirra stærstu að leiðarljósi. „Verkalýðsfélög virðast miða sínar kröfur við hag sinna minnstu bræðra en SA við hag sinna stærstu meðlima. Á sama tíma kalla samtökin eftir samstöðu í eigin ranni en eru með innbyggt ójafnvægi sem gerir það að verkum að þeir hinir stærri ráða för,“ skrifar Steinþór.
Hann er hugsi um tilganginn með Samtökum atvinnulífsins:
„Stærri og stærri hluti meðlima SA hefur ekki bolmagn til standa undir því sem samið er um, verandi í harðri samkeppni, ekki síst við innflutning. Engu að síður vilja samtökin hafa um allt að segja, þiggja meðlimagjöld byggð á umfangi rekstrar og þenja út starfsemina á þann hátt að enga krónu má missa. Hefur undirritaður sem meðlimur samtakanna haft þann eina hag af verunni að hægt hefur verið að mæta á aðalfund og fá „frítt“ að borða í hádeginu. Sem er auðvitað blekking, nær væri að tala um dýrasta hádegisverð ársins. Þau mál sem ég hef leitað til SA með hafa einhvern veginn leyst sig sjálf án þess að aðkoma samtakanna hafi skipt nokkru eða bætt stöðu míns fyrirtækis. Hygg ég að svo sé um marga aðra. Mörg nýrri fyrirtæki sjá sér ekki hag í því að vera innan SA, margir úr minni stétt eru hættir og aðrir búa sig til brottfarar. Erfitt er fyrir nokkurt lítið eða meðalstórt fyrirtæki að réttlæta fleiri hundruð þúsunda eða milljóna greiðslur félagsgjalda inn í SA eins og málum er háttað. Eigendur fyrirtækjanna fengju meira fyrir krónurnar með niðurgreiðslu skulda en að kasta þeim í tilgangsleysið í Borgartúni 35.
Grein Steinþórs er lengri. Meðal annars gagnrýnir hann Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA.