Alþingi „Mér finnst það óþolandi, virðulegi forseti, og skýri það með rökum hér á eftir, að nokkrir mánuðir skuli falla niður hjá þessum þjóðfélagshópi og finnst það ekki hægt,“ sagði Kristján Möller á Alþingi í gær, þegar hann gerði að umtalsefni laun aldraðra og öryrkja.
Hann sagðist setja stöðu þeirra í í samhengi við kjarasamninga á hinum almenna markaði sem er flestöllum að ljúka. „Þeir eiga auðvitað að fá sínar bætur afturvirkt eins og launþegar í landinu eru að fá þó svo að það séu misjafnar dagsetningar í því eins og við þekkjum. Þess vegna hvet ég til þess að stjórnarliðar taki þetta mál og horfi á það réttsýnum augum og berjist fyrir því að þetta verði gert núna við fjáraukatillögurnar. Ég segi fyrir mitt leyti að að öðru leyti verður stjórnarandstaðan að sjálfsögðu að flytja breytingar um fjáraukatillögur fyrir 2015 með þessari hækkun inni. Það verður að gerast.“
Kristján nefndi niðurstöðu kjararáðs og sagði: „Það er búið að leggja meginlínur í kjarasamningum og þær eru orðnar skýrar og þess vegna gat kjararáð tekið sitt mál og úrskurðaði samkvæmt lögum fyrir forseta Íslands, ráðherra, alþingismenn, dómara, forstöðumenn ríkisstofnana, eins og kjararáð á að gera samkvæmt lögum. Þar kemst kjararáð að því að þessir hópar skuli fá afturvirkar greiðslur. Að vísu er deilt um hvers vegna það er 1. mars en ekki 1. maí, ég læt það liggja milli hluta.“