„Við lagningu ljósleiðarans var klippt á koparvír sem tengdist í heimasíma á bæjum og þetta hefur orðið þess valdandi að stundum er ekki mögulegt að ná símasambandi,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir Framsóknarflokki, á Alþingi.
„Símasamband er mikilvægt öryggisatriði sem og mjög mikilvægt í daglegu lífi. Til að leggja áherslu á mál mitt ætla ég að taka Dalabyggð sem dæmi,“ sagði hún og vitnaði til tölvupósta um stöðu fjarskiptamála í sveitarfélaginu. „Sjálf þekki ég ágætlega til þar sem ég hef búið í Dalabyggð en þar er staðan sú að á mörgum heimilum í dreifbýlinu er lítið eða ekkert símasamband,“ sagði Lilja Rannveig.
„Það þýðir að ekki er hægt að ná í foreldra eða forráðamenn ef eitthvað kemur upp á hjá börnum í skólum. Það þýðir að það er ekki möguleiki fyrir íbúa að hringja á aðstoð ef eitthvað kemur upp á. Verðandi foreldrar verða að fara að heiman mörgum dögum fyrir fæðingu vegna þess að þau geta ekki treyst á að ná sambandi við viðbragðsaðila og íbúar eiga ekki möguleika á því að nota rafræn skilríki heima hjá sér því að innskráningarbeiðnin er útrunnin loksins þegar hún kemur í símanum. Íbúar fá þau skilaboð að fjarskiptafyrirtækjum þyki það of kostnaðarsamt að bæta farsímasamband á fámennum svæðum. Slík svæði finnast um allt land. Mikilvægt er að fara í kortlagningu á þessu og ég hvet hæstvirtan ráðherra fjarskiptamála til að bæta öryggi íbúa í dreifðum byggðum.“