Undanfarna áratugi hefur forysta og starfslið verkalýðshreyfingarinnar unnið ötullega að því að brjóta niður almennt félagsstarf og draga úr völdum og aðkomu almennra félaga.
Gunnar Smári skrifar:
Ég skil ekki yfirlýsingar verkalýðsforystunnar um lélega kjörsókn í kosningum um kjarasamninga. Dræm kjörsókn bendir til þess að flestir félagar meti það svo að samningarnir verði samþykktir með góðum meirihluta. Fólk kýs alltaf taktískt, ef það metur það svo að atkvæði þess skipti ekki máli þá mætir það ekki á kjörstað.
Undantekningar frá þessu eru kosningar um hvort Ísland ætti að segja sig úr konungssambandi við Danakóng og í öðrum tilfellum þegar fólk hefur metið atkvæði sitt sem nánast andlega yfirlýsingu, skilgreinandi á einhvern hátt. Kosningar um svokallaðan lífskjarasamning var ekki þess eðlis.
Ef forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur búist við mikilli þátttöku sem einskonar stuðningsyfirlýsingu við forystuna og stefnu hennar þá hefur það verið óskhyggja; verkalýðshreyfingin á langa og starfsama leið fyrir höndum áður en meginþorri félaga lítur á félögin sem sín félög, félagsskap sem þeir eru stoltir af, telja sig tilheyra, eiga allt undir og hafa vald yfir.
Undanfarna áratugi hefur forysta og starfslið verkalýðshreyfingarinnar unnið ötullega að því að brjóta niður almennt félagsstarf og draga úr völdum og aðkomu almennra félaga. Þótt forystan segist vilja byggja upp grasrótarstarf þá verður það ekki þar með til; almennir félagar hlýða ekki því kalli. Þetta er fólk sem hefir verið svikið af sínu forystufólki, svikið af stjórnmálafólki og svikið af flestum þeim sem þóst hafa borið hagsmuni þeirra fyrir brjósti. Það væri í meira lagi skrítið ef fólk með þá reynslu stykki upp til handa og fóta þegar forystan kallaði.
Almennir félagar í verkó vilja sjá og upplifa breytta hreyfingu, verða vitni af því að valdi og ákvörðunum, stefnumótun og áherslum, sé deilt út frá skrifstofunum og til félaga. Þegar félagarnir finna að þeirra sé vænst til einhvers meira en að blessa og tigna forystuna munu þeir mæta.