Stjórnsýsla Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins sagði í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær, að sér þætti sérstakt ef ríkisvaldið héldi ekki upp vörnum vegna málareksturs vegna hvort verðtrygging sé lögleg eða ekki. Það væri hlutverk ríkisins að verja eigin lög ef á þau reynir fyrir dómstólum.
„Já, það er mín persónulega skoðun og það er líka niðurstaða flokksþing Framsóknarflokksins að afnema verðtryggingu og hvernig á að gera það og það er líka í sáttmála ríkisstjórnarinnar og það hefur verið unnið samkvæmt honum,“ sagði Willum Þór þegar hann var spurður hvort það væri hans skoðun að verðtryggingin verði að víkja.
Willum Þór sagðist bjartsýnn á að til tíðinda dragi í haust. „Það er mikilvægt að verja heimilin fyrir þessu fyrirkomulagi og það er þingmanna að stíga þar inn leggja til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu.“
Willum Þór var spurður hvort hann vissi hver hugur þingmanna Sjálfstæðisflokksins er. „Þeir eru íhaldssamari í þessa veru, það er minn skilningur, ég hef ekki dregið það saman, en það eru misjafnar skoðanir á málinu, vissulega.“
Willum Þór sagðist hafa skýra afstöðu varðandi verðtryggnguna. „Það á að afnema hana, og enga millileiki.“ Hann sagði nú vera kjöraðstæður til að gera það núna og krónan sé engin fyrirstaða. Hann nefndi höftin og þann stöðugleika sem er í skjóli þeirra.