Efnahagsmál Ólafur Margeirsson hagfræðingur skrifar fína grein í Viðskiptablaðið. Þar hrekur hann fullyrðingar um ágæti peningamálastefnunnar og afleiðingarnar af háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands.
Sem áður, ekkert vit í hagfræðinni
Ólafur bendir á að tilgangur stýrivaxtahækkana sé að hækka vexti á lánum til einstaklinga og fyrirtækja. „Vonin er að þetta dragi úr veittum útlánum – og auki sparnað – og þar með eftirspurn. Þegar eftirspurnin dregst saman á verðbólguþrýstingur að minnka. Þetta er neóklassísk kennslubókarhagfræði. En eins og svo oft áður er fátt vit í slíkri hagfræði þegar á hólminn, þ.e. raunveruleikann, er komið. Vissulega hafa bæði meðalnafnvextir og -raunvextir hækkað á útlánum innlánastofnana til heimila og fyrirtækja í ágætum takti við stýrivaxtahækkanir – jafnvel þótt vextir á kjörlánum hafi staðið í stað eða lækkað á sama tímabili. Vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hafa líka hækkað í takt við stýrivaxtahækkanir – jafnvel þótt verðtryggðir vextir á íbúðalánum hafi staðið í stað eða lækkað.“
Tökum samt lán
„Við stöndum því uppi með mynd þar sem óverðtryggðir vextir hafa (sumir) hækkað en verðtryggðir ekki. Bara við þessa einu staðreynd ætti fólk að byrja að efast um að peningamálastefnan sé að virka. En myndin versnar enn. Því jafnvel þótt Seðlabankanum takist að hafa áhrif á vaxtastigið, sem er greinilega ekki víst, hefur það áhrif á magn nýrra veittra útlána? Svarið við því er „nei“. Miðað við gögn Seðlabankans og sé miðað við 12 mánaða meðaltal, til að losna við árstíðarsveiflur, þá hafa ný heildar nettó útlán bankastofnana aukist úr 21,1 milljarði í júní í 27,9 milljarða nú. Á sama tíma hafa stýrivextir, sem ætlað er að draga úr útlánaþenslunni, hækkað. Það er því varla hægt að segja að þótt peningamálastefnunni hafi tekist að hækka (suma) vexti í bankakerfinu þá sé að draga úr útlánaþenslunni á sama tíma.“
Bjartsýni að segja að peningamálastefnan virki
„Því er bjartsýnt, svo ekki sé meira sagt, að halda því þá fram að peningamálastefnan sé að virka. Og ástæðan er afskaplega einföld, líkt og Keynes var fyrstur til að benda á: væntingar lánveitenda og lántaka um gróða af lánaviðskiptunum og notkun lánsfjárins skipta meira máli en raun- eða nafnvaxtastigið á láninu. Því í dag, líkt og árið 2005, halda og ætla allir á Íslandi að þeir geti og verði ríkir. Munurinn er að árið 2005 vildu allir eiga banka. Nú vilja allir eiga skúr til að leigja út á airbnb.“
Fólk hefur verið ánægjulega hissa á því hversu lág verðbólgan hefur verið í kjölfar „veglegra“ kjarasamninga og leitað skýringa, segir Ólafur. Ásgeir Jónsson, í nýlegri grein í Viðskiptablaðinu, stingur upp á því að ástæðan sé sú að peningamálastefna Seðlabankans sé að virka. En það stenst ekki skoðun, segir Ólafur Margeirsson:
„En hvar er þá verðbólgan? Að lokum er rétt að benda á hví verðbólgan er eins lág og raun ber vitni, þrátt fyrir „veglega“ kjarasamninga. Ástæðurnar eru nákvæmlega þær sem Ásgeir minnist á í sinni grein: gengi krónunnar og lágt olíuverð. Það er í fullkomnu samræmi við það sem Viðar Ingason, hagfræðingur hjá VR, benti á í febrúar. Kjarasamningarnir voru einfaldlega nægilega hóflegir.“