Sprengisandur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að mestan fjárhagsvanda Reykjavíkur megi rekja til nýgerðra kjarasamninga. Til að mæta þeim að fullu hefði þurft að skera meira niður, en kostnaðarauki borgarinnar vegna saminganna kosta borgina fimm milljarða ári. Nú er búið að ákveða niðurskurð upp á tæpar átján hundruð milljónir króna.
Þetta kom fram í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Halldor Halldórsson sagði rétt hjá Degi að samningarnir væru dýrir. „Þetta er ekki bara vegna kjarasamninga. Það hefur safnast upp vandi í borginni,“ sagði Halldór. „Þetta er uppsafnaður vandi. Það hefur verið tap á A-hluta í mörg ár.“
Halldór upplýsti að vinnugögn sýni að staðan er verri og hann segir vont að vera bundinn trúnaði um það sem þar er að finna.
Dagur sagði að það hallaði á borgina um einn milljarð á ári í samskiptum við ríkið.
Dagur sagði ennfremur að sala eigna sé skoðuð og betri nýting húsnæðis sem borgin á og leitað verði leiða til að segja upp leigusamningum þar sem borgin er með starfsemi sína í leigurýmum.
Báðir segja þeir Halldór og Dagur að ekki eigi að segja upp starfsmönnum en ráðningarbann, eða því sem næst, verði tekið upp. Með starfsmannaveltu muni starfsfólki borgarinnar fækka.
Halldór sagði langt í að jafnvægi náist í rekstri borgarinnar.