Björgvin Guðmundsson skrifar: Í Silfrinu í morgun voru nokkrir stjórnmálaforingjar í tilefni af því að þingið kemur saman á þriðjudag. Meðal þeirra var forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir. Það var mikið flug á henni, þegar hún sagði,að gera ætti kerfisbreytingar í loftslagsmálum.
Ljóst er, að Bjarni hefur gefið henni lausan tauminn i loftslagsmálunum. Ekki ber að lasta aðgerðir í loftslagsmálum en ég get ekki neitað því, að önnur mál standa mér nær svo sem kjarabætur til handa öldruðum og öryrkjum, réttlæti í álagningu veiðigalda; ekki hækkun þeirra, útgerðin græðir á tá og fingri og þjóðin fær ekki réttlátan arð af sjávarauðlindinni.
Katrín minntist ekki á lífeyri aldraðra og öryrkja enda þótt sveltistefna gildi gagnvart þessum hópum. Katrín sagði eina ferðina enn að hún hefði unnið viss afrek í kjaramálunum og nefndi hækkun atvinnuleysibóta, þegar ekkert atvinnuleysi er og að kjararáð hefði verið lagt niður án þess að taka til baka neinar ofurhækkanir, sem kjararáð ákvað svo sem á launum þingmanna og ráðherrra. Ekki má heldur gleyma því afreki Katrinar að halda mjög marga fundi (sennilega 15) með aðilum vinnumarkaðarins. Ég hef að vísu aldrei heyrt áður,að það hafi verið talið til afreka að halda marga fundi.