„Við höfum náð árangri í að bæta hag heimilanna, langt umfram nágrannaþjóðirnar,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra á Alþingi, rétt í þessu. Þar svaraði hann fyrir leiðréttinguna, eitt helsta mál síðustu ríkisstjórnar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var upphafsmaður umræðunnar. Hún þakkaði Bjarna fyrir að vera hreinskilinn og segja aðgerðina ekki hafa verið jöfnunaraðgerð. „Var ekki jöfnunaraðgerð, heldur ójafnaðaraðgerð. Þá liggur það fyrir,“ sagði Katrín.
Katrín sagði einnig að það vekti athygli að þingmenn tveggja flokka hefðu ekki tekið þátt í umræðunni, þingmenn Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, enda væri ekki vikið einu orði að húsnæðismálum í stjórnarsáttmálanum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók þátt í umræðunni og sagði í upphafi að honum þætti Bjarni hafa; „…staðið sig betur en ég átti von á.“
Sigmundur Davíð var sammála Bjarna um að verið væri að afvegaleiða umræðuna með því hvernig spurningar um skýrsluna eru orðaðar.
Lilja Alfreðseóttur sagði leiðréttinguna vera eina farsælustu aðgerð sem ráðist hefur verið í; „…og var sannkölluð millistéttaraðgerð. Þetta var réttlætisaðgerð.“
Steingrímur J. Sigfússon sagði ekki neitt eitt við málið, heldur allt við það vera með eindæmum. Hann sagði leiðréttinguna hafa fært milljarða til tekjuhæsta og eignamesta fólksins. Steingrímur gerði athugasemdir við orð Bjarna og Sigmundar Davíð, þegar þeir deildu á hvernig spurningar væru orðaðar. „Framkvæmdavaldinu kemur ekkert við hvernig Alþingi orðar spurningar sínar.“