KJ: Hættan að við glötum mennskunni
Ávarp Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, skrifar áramótaávarp í Morgunblaðið í dag.
Hér er hluti þess:
Hvað er frelsi?
„Í íslenskri stjórnmálaumræðu hefur frelsið oft verið skilgreint með þröngum hætti, út frá hagsmunum fárra en ekki endilega út frá hagsmunum fjöldans. Stóru átakamálin í stjórnmálum liðins árs snúast hins vegar ekki síst um frelsi allra. Ekki um verslunar- og viðskiptafrelsi heldur frelsi í víðtækari skilningi þess orðs, frelsi fólks í hnattvæddum heimi. Frelsi fólks snýst meðal annars um frelsi almennings á Íslandi til að búa við mannsæmandi kjör. Það snýst um hvernig við ætlum að skipta þeim gæðum sem við eigum. Það snýst um aldraða og öryrkja, láglaunafólk og allt það fólk sem á erfitt með að ná endum saman hver einustu mánaðamót.“
Lýsandi veruleiki
„Þjóðflutningar hafa sett svip sinn á allt árið. Þar olli straumhvörfum fréttaljósmynd af litlum dreng, Alyan Kurdi. Hann var einn þeirra Sýrlendinga sem flúðu heimaland sitt á árinu og lagði ásamt fjölskyldu sinni í óvissuferð yfir Miðjarðarhafið. Hann komst aldrei á leiðarenda. Myndin var kölluð Skipbrot mennskunnar víða í erlendum miðlum.
Þá strax upphófust raddir um að ekki mætti einungis hugsa um þá sem birtast á fréttamyndum. En fólkið á myndunum er fólk eins og aðrir. Veruleiki þess er lýsandi fyrir veruleika margra. Og þó að það sé óþægilegt að sjá svona beint framan í vanda fólks í fjarlægum löndum þá megum við ekki brynja okkur fyrir slíkum myndum heldur fáum við tækifæri til að sýna samkennd í verki. Annars er hættan sú að við glötum mennskunni.“
Rufu múr þöggunar
„Á árinu 2015 fögnuðum við hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna og var þess minnst með ýmsum viðburðum sem ber að þakka fyrir. Hins vegar bar hæst þær kvenréttindabyltingar sem urðu á netinu á árinu, annars vegar hina svokölluðu brjóstabyltingu sem snerist um að afklámvæða brjóst kvenna og hins vegar var Beauty tips-byltingin þar sem konur stigu fram og rufu múr þöggunar um kynbundið ofbeldi. Báðar þessar byltingar sýna að baráttunni gegn misrétti karla og kvenna, sem heimspekingurinn John Stuart Mill taldi um miðja 19. öld hvað rótgrónast alls ójafnréttis, er hvergi nærri lokið en líka að þarna skilar samstaðan árangri og breytingum í átt til aukins frelsis beggja kynja.“
Tryggja grunnþjónustu fyrir samfélagið allt
„Árinu lauk með hörðum átökum á þingi þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar sameinuðust um að gera tillögur um kjarabætur fyrir öryrkja og aldraða sambærilegar þeim sem náðst höfðu á vinnumarkaði og að þær skyldu verða afturvirkar. Þessar tillögur sameinaðrar stjórnarandstöðu endurspegluðu kröfur öryrkja og aldraðra en hópar þeirra stóðu og mótmæltu við þingið hvern dag þegar þingi var að ljúka. Því miður voru tillögur stjórnarandstöðunnar felldar og aldraðir og öryrkjar sitja eftir. Það er ljóst að ýmsir í þessum hópi búa við mjög bág kjör, þurfa jafnvel að lifa á undir tvö hundruð þúsund krónum á mánuði. Það ætti að vera metnaðarmál okkar á nýju ári að tryggja þeim það frelsi að geta lifað af sínum ráðstöfunartekjum. Það er vonandi að samstaða náist um það og eins um að tryggja grunnþjónustu fyrir samfélagið allt. Það verður ekki gert með því að auka einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og draga úr tækifærum fólks til menntunar eins og raunin hefur orðið á þessu ári.“
Fyrirsögn og millifyrirsagnir eru Miðjunnar.