Viðhorf Lögreglan gekk sýnilega of langt við leit á sextán ára stúlku í fangaklefa á Akranesi. Það er gott hjá bæjarstjóranum, Regínu Ástvaldsdóttur, að óska skýringa á framferði lögreglunnar.
Svo er að sjá að lögreglan hafi brotið lög með því að kalla ekki til barnavarnanefnd áður en stúlkan var berháttuð og leitað var í kynfærum hennar og afturenda.
Ómögulegt er að skilja hvað lögreglan hélt að stúlkan væri að fela. Neysluskammt af einhverju fíkniefni? Var nauðsyn að sniðganga mannréttindi stúlkunnar, lög og reglur þess vegna?
Örugglega ekki.
Atvik sem þessi segja okkur að lögreglunni er ekki treystandi, ekki alltaf.
Aðspurð segist þjóððin bera mikið traust til lögreglunnar. Samt sem áður koma af og til upp tilfelli í starfi lögreglunnar sem eru óþörf, jafnvel óheiðarleg, hörð og ónærgætin.
Brýnt er að fylgjast með hvert Skagamálið fer, hver niðurstaðan verður. Svo virðist sem lögreglan hafi í krafti valds og búnings gengið alltof langt. Það má bara ekki.