Mynd: Thomas Kelley/Unsplash.

Stjórnmál

„Kerfið hefur sjálft tekið sér vald“

By Miðjan

May 10, 2020

„Kerfið hefur sjálft tekið sér vald að tútna út og fjölga skrifborðum og stöðugildum og hrópar síðan sífellt á meiri peninga frá skatt- og útsvarsgreiðendum. Þetta fyrirkomulag er komið á algjöra endastöð í okkar fámenna samfélagi,“ bókaði Vigdís Hauksdóttir Miðflokki, á nýjasta fundi borgarráðs. Tilefnið var þetta:

„Lengi hefur verið rætt um að fara í endurbætur á stjórnskipulagi byggðasamlaga Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Nú er sú vinna hafin og sviðsmyndir liggja fyrir. Næstu skref eru að finna bestu leið sem tryggir markmið um rekstur byggðasamlaga til langs tíma, stuðla að því að efla og einfalda samkeppni og að markmiðum um skýra stjórnarhætti sé náð,“ bókuðu fulltrúar meirihlutans.

Vigdís: „Varað er við því að færa ábyrgð og vald kjörinna fulltrúa inn í ohf. félög á vegum sveitarfélaganna. Sífellt er verið að flækja stjórnsýslu opinberra aðila og segja má að búið sé að stofna þriðja stjórnsýslustigið á Íslandi með stofnun Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Um það gildir lagaeyða. Félagsform byggðasamlaga er ekki vandamálið sem verið er að reyna að ná tökum á heldur reksturinn sjálfur. Nú er boðað enn eitt stjórnsýslustigið án lagaumgjarðar um en það er opinbert hlutafélag sem ríkið er aðili að um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Í þessari vinnu allri er byrjað á röngum enda.“