- Advertisement -

Kerfið gerir ráð fyrir að hin fátæku séu sekur skríll en hin ríku séu hafin yfir lög

Gunnar Smári skrifar:

Heilbrigðiskerfið á Íslandi byggir á að hafa eftirlit með öryrkjum, krefjast aðgangs að öllum bankareikningum og fjárhagsupplýsingum ef þeir þiggja 2,9 m.kr. á ári í örorkubætur, upphæð sem ekki dugar fyrir fæði, klæði og húsnæði.

En kerfið hefur ekkert eftirlit með hjartalækni sem Sjúkratryggingar greiða 102 m.kr. á ári né fyrirtæki í ómskoðun sem greiðir eigendum sínum yfir 200 m.kr. á ári í arð. Sjúkratryggingar greiða þetta út blindandi, spyrja einskis og afla engra upplýsinga um raunverulegan kostnað að baki þjónustunni.

Kerfið gerir því ráð fyrir að hin fátæku séu sekur skríll en hin ríku séu hafin yfir lög samfélagsins, sem ætlað er að hemja lýðinn. Hin sterku þurfa engar reglur því það sem þau gera eru lögin, svo vísað sé til übermensch Nietzsche.

Þetta er einkenni okkar samfélags, alræði hinna sterku, ríku og valdamiklu. Einhver ákvað að hafa þetta svona og einhver hafa sætt sig við það. Þetta er mannana verk, sköpunarverk okkar.

Ættum við ekki að breyta þessu og hafa kerfið öðruvísi? Jafnvel þveröfugt, að gefa hinum fátæku mat, líf og frelsi en stöðva fjárdrátt hinna ríku?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: