ALÞINGI Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, talaði á Alþingi fyrir skömmu um áhyggjur fólks þessa dagana.
„Þegar hlustað er eftir því hvað fólkið í landinu hefur um þessi mál að segja þá eru þær áhyggjur margháttaðar. Þær snúast um það hvernig kostnaður sjúklinga hefur vaxið jafnt og þétt. Þær snúast um það mikla álag sem er á Landspítalanum, sem er á heilsugæslunni um land allt og á öðrum sjúkrahúsum. Þær snúast um þær áhyggjur sem landlæknir hefur sett fram um að heildarsýn vanti á þróun heilbrigðisþjónustunnar. En áhyggjurnar tengjast líka réttlátri reiði yfir því að á sama tíma berast fregnir af milljarðaarði, hvort sem er í fjármálakerfinu eða í sjávarútveginum. Það berast fregnir af því frá ríkisskattstjóra að hér séu skattaundanskot á ári um 80 milljarðar. Það er nú ýmislegt sem mætti gera við þá fjármuni, herra forseti,“ sagði Katrín.
Leiðrétta ranglætið
„Það er á svona stundum sem almenningur upplifir það að kerfið hafi orðið viðskila við réttlætið, kerfið sem við höfum byggt upp saman og á að snúast um að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, að menntun, að innviðum; að þetta kerfi hafi orðið viðskila við réttlætið. Þá skiptir máli að við sem erum í stjórnmálunum, tökum þátt í stjórnmálum dagsins í dag, horfumst í augu við það hvað við getum gert til að leiðrétta þetta ranglæti.“
Vitum að peningar eru til
„Við getum til að mynda ekki brugðist við þeirri áskorun sem nú liggur frammi, meira en 80 þús. Íslendinga, nema við treystum okkur til að endurskoða tekjuöflunina, því að það er svo sannarlega búið að forgangsraða í ríkisrekstri. Það skiptir máli að afla aukinna tekna og gera það með réttlátum hætti þannig að þeir eiga peningana leggi meira af mörkum til samfélagsins, því að við vitum og almenningur veit að þessir peningar eru til,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.