Keppum við Costco í þjónustuupplifun
- allir hafa reimt á sig hlaupaskóna í samkeppninni við Costco.
„Við erum með allt annað þjónustuframboð og erum ekki með lokaðan klúbb fyrir okkar viðskiptavini. Við erum því ekki að keppa við Costco í verði, heldur erum við að keppa við þá um þjónustu og þjónustuupplifun,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, í viðtali í Viðskiptablaðinu.
En hvað segir hann um Costco og samkeppnina?
„Mér sýnist að allir séu meira eða minna búnir að reima á sig hlaupaskóna. Ég held að innkoma Costco hafi bara jákvæð og góð áhrif á alla samkeppni á smásölumarkaði. Costco er alvöru samkeppni og býr við allt annan styrk en önnur fyrirtæki á markaðnum hér á landi í innkaupum, fjármögnun og fleiru enda næststærsta smásölufyrirtæki í heimi sem fer nú ekki mikið fyrir í fjölmiðlum sem hafa hamast við að kynna þetta fyrirtæki hér á landi endurgjaldslaust. Hins vegar verður að hafa í huga að Costco er með allt annað viðskiptamódel heldur en við.“
Hagar hafa keypt Olís, hverju breytir það?
„Hagar eru með góða innviði, gott innkaupaskipulag og eru sérfræðingar í meðhöndlun vara. Þetta styrkir okkur í innkaupum og það fæðist mikill styrkur í okkar vöruúrvali í gegnum kerfið hjá Högum. Við sjáum því mikil vaxtartækifæri í verslunarrekstri á eldsneytisstöðvum Olís. Þannig að ég tel að Olís muni njóta góðs af sterkri stöðu Haga í rekstri, sem verður til þess að neytendaábatinn verði enn meiri fyrir okkar viðskiptavini.“
Sjá nánar hér: http://www.vb.is/frettir/bretta-upp-ermarnar/138713/