Samfélag Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. „ Að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja er ekki til árangurs fallið og mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri,“ segir á vef SA, sa.is.
Tilefnið er umsögn samtaka við nýtt frumvarp sem á að taka á kennitöluflakki.
Alltof langt gengið
„Í frumvarpinu er allt of langt gengið í því að gera litlum fyrirtækjum og örfyrirtækjum að skila reikningum sínum til opinberrar birtingar. Hafa verður í huga að hér er um að ræða umfangslítinn rekstur þar sem aðrir en þeir sem að rekstrinum standa hafa hverfandi hagsmuni af því að hafa opinberan aðgang að ársreikningum. Einnig er rétt að benda á að oft er um að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki þar sem birting ársreiknings jafngildir nánast því að skattframtöl einstaklinga séu gerð opinber sem er í andstöðu við persónuvernd. Það er fullkomlega eðlilegt að lítil fyrirtæki og örfyrirtæki telji það andstætt sínum hagsmunum að birta ársreikninga sína opinberlega,“ segir SA.
Hörð viðurlög við skipulögðum undanskotum
„Fyrirtækjunum ber að sjálfsögðu að skila skattframtali og standa skil á sköttum og gjöldum en síst þurfa þessi fyrirtæki á að halda óþarfa upplýsingagjöf þar sem hver sem er getur öðlast nánast fulla innsýn í rekstur örfyrirtækisins, markað þess og þróun,“ segir SA.
„Það verður að beita öðrum aðferðum við að ná til þeirra sem brjóta lög og standa ekki skil á sköttum og gjöldum en takmarka möguleika fólks til að stofna til eigin reksturs. Mætti þar meðal annars horfa til að herða á refsiákvæðum þegar rekstraraðilar verða uppvísir af skipulögðum undanskotum líkt og þeim er felast í kennitöluflakki.“