- Advertisement -

Kennarar gera alvarleg athugasemd vegna orða Katrínar og Willum

Oddný Harðardóttir.
Ég tel, líkt og dæmin sanna, að farsælla sé að treysta á ráð fagmanna, hvort sem er í sóttvörnum, vegna skólastarfs, uppeldis eða menntunar, frekar en að treysta á hyggjuvit einstakra stjórnmálamanna í þeim efnum,

„Ég vil gera að umtalsefni ályktun stjórnar Kennarasambands Íslands þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við þann málflutning hæstvirtra forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra um að skólum þurfi að halda opnum í heimsfaraldri til að konur komist í vinnuna. Stjórnin bendir á að ef stjórnvöldum sé jafn annt um jafnrétti og þau segja, séu þeim hæg heimatökin að byrja í eigin ranni, enda viðhaldi þau sjálf einu stærsta kerfislæga ójafnrétti íslensks samfélags; láglaunastefnu kvennastétta í opinberum störfum. Ummæli ráðherranna fóru skiljanlega fyrir brjóstið á kennurum, enda mikið mætt á þeim og starfsfólki skóla í þau tæpu tvö ár sem íslenskt samfélag, líkt og heimurinn allur, hefur glímt við kórónuveirufaraldurinn,“ sagði Oddný Harðardóttir á Alþingi í dag.

„Kennarasambandið bendir á að á þeim tíma hafi erlend ríki horft til Íslands sem fyrirmyndar í því hvernig menntakerfi geti tekist á við erfiðleika af þessu tagi. Hér hafa orðið raskanir á námi og uppsafnaður heilsufarslegur, félagslegur og námslegur vandi sé raunverulegur og alvarlegur, en íslenskum skólum hafi þó almennt tekist að mæta áskorunum í heimsfaraldri. Lykillinn að þeim árangri felst fyrst og fremst í aðlögunarhæfni, fagmennsku og nýsköpunarstarfi íslensks skólafólks sem gerir sitt besta á hverjum degi. Þegar horft er til Íslands sem fyrirmyndar um skólastarf á tímum farsóttar er ekki verið að horfa til málflutnings stjórnmálamanna heldur starfa þeirra sem halda skólakerfinu gangandi. Lykillinn er að treysta á fagfólk og eiga í öflugu samráði, sem fór reyndar ekki fram þegar ákvörðunin var tekin um að halda skólastarfi óbreyttu við síðustu ákvörðun um sóttvarnir. Ég tel, líkt og dæmin sanna, að farsælla sé að treysta á ráð fagmanna, hvort sem er í sóttvörnum, vegna skólastarfs, uppeldis eða menntunar, frekar en að treysta á hyggjuvit einstakra stjórnmálamanna í þeim efnum,“ sagði Oddný.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: