„Grýta þetta pakk“ er yfirskrift greinar um haturstjáning í íslensku samhengi. Höfundar eru Eyrún Eyþórsdóttir, lektor, hug- og félagsvísindasvið, Háskólinn á Akureyri Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, Háskóli Íslands.
Í niðurlagi langrar greinar segir:
„Niðurstöður rannsókna, auk þeirra gagna sem safnað var fyrir rannsóknina, sýna glöggt fram á að ákveðið fordæmi hefur verið gefið í samfélaginu sem skapar rými fyrir tjáningu neikvæðra viðhorfa gegn minnihlutahópum sem ætlað er að kynda undir hatri og mismunun. Þessi orðræða er notuð til að stilla minnihlutahópum upp sem ógn gegn íslenskri menningu, „hvíta kynstofninum“, konum og öryggi samfélagsins. Orðræðan beinist að mestu leyti gegn múslímum.
Einstaklingar sem halda úti orðræðu sem þessari hafa í sumum tilfellum beinan aðgang að fjölmiðlum í gegnum eignarhald og stjórnun miðlanna þar sem falsfréttum er meðal annars miðlað. Í gegnum þessa miðla hafa þessir einstaklingar möguleika á að setja ákveðin mál á dagskrá eða hafa áhrif á umræðuna.
Hér er einnig áhyggjuefni að tilteknir og óþekktir aðilar virðast hafa bolmagn til að fjármagna viðburði þar sem fengnir eru til landsins einstaklingar sem þekktir eru fyrir að miðla hatursáróðri, sem og til að veita fé til þýðingar og útgáfu bóka þar sem meginmarkmiðið virðist vera að sýna að „hvítum Evrópubúum“ standi ógn af múslímum; bóka sem eru til þess fallnar að skapa neikvæðar tilfinningar í garð fjölbreytni í samfélaginu.
Slíka orðræðu er jafnframt að finna innan stjórnmálanna, en stjórnmálaflokkarnir Íslenska þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn eru meðal annars stofnaðir sérstaklega gegn innflytjendum, múslímum og fólki sem leitar alþjóðlegrar verndar. Jafnvel þótt fylgi þessara flokka hafi ekki náð miklu flugi hingað til hafa þeir góðan aðgang að fjölmiðlinum Útvarpi Sögu til að dreifa hatursáróðri. Þótt aðrir stjórnmálaflokkar hafi þessi stefnumál ekki á sinni dagskrá hefur stjórnmálafólk úr ýmsum öðrum flokkum talað á neikvæðum nótum um þessa hópa með margvíslegum hætti og sérstaklega má skoða tengingar einstaklinga sem hafa verið kosnir sem fulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins við aðila sem miðla haturstjáningu.
Uppgangur skipulagðra haturshópa eins og Norðurvígis og Vakurs hefur sýnt fram á það að grundvöllur er fyrir slíkri starfsemi hérlendis. Hér verður sérstaklega að gæta þess að vanmeta ekki slík samtök vegna fámennis heldur hafa í huga að í flestum hryðjuverkum sem hafa verið framin í nafni öfgahægrihyggju hafa verið á ferð svokallaðir „lone wolves“ eða aðilar sem tilheyra ekki skipulögðum hópum öfgamanna heldur eru „ósýnilegir“ fylgjendur slíkra samtaka á netinu. Margir þeirra sem halda úti því sem er hatursorðræða eða á mörkum þess tala um að tjáningarfrelsið eigi í vök að verjast og réttlæta fordóma og haturstjáningu með vísan til 73. greinar stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 en taka þó ekki tillit til þess að lagagreinin tilgreinir klárlega að tjáningu megi skerða. Samtímis er ósýnilegt hver fjármagnar útgáfu og þýðingu á bókum sem eru þekktar alþjóðlega fyrir fordóma, sem og innflutning á fyrirlesurum sem telja fólki trú um að Evrópa sé í stríði við múslíma, og rekstur fjölmiðla sem dreifa þessum fordómum. Þessi upptalning á öfgahópum hér er ekki tæmandi og fleiri hópa er að finna. Haturstjáning tengist uppgangi popúlískra stjórnmála, öfgaafla, vaxandi íslamsfælni og pólun (e. polarization) á Íslandi og í hinum vestræna heimi. Hatursfull tjáning sem sett er fram í samfélaginu sprettur því ekki upp úr tómarúmi og er oft réttlætt eða látin óátalin í nafni tjáningarfrelsis.
Einstök ummæli einstaklinga verða hluti af af skipulagðri haturstjáningu sem beint er gegn ákveðnum minnihlutahópum og er ætlað að meiða, jaðarsetja og ógna en umfram allt sýna fram á ímyndaða yfirburði eins hóps gagnvart öðrum.“