„Ekki veit ég á hvaða ferðalagi stjórnendur kaupfélagsins míns KS eru á, en í hádeginu þá var ætlunin að skrifa eitthvað smáræði í Skagfirðingabúð, vegna þess að veskið hafði gleymst heima. Ég fékk þau skilaboð að það væri ekki lengur hægt þar sem búið væri að loka á reiknisviðskiptin. Þessar fréttir komu mér í opna skjöldu þar sem ég taldi að hvoru tveggja ætti ég örlitla inneign hjá KS og að sömuleiðis greiddi KS, Creditinfo væna upphæð árlega fyrir að vakta mig og fleiri. Eftir að veskið var heimt heim í ófærðinni til þess að hægt yrði að leysa út vörurnar, þá kannaði ég stöðu reikningsins og vöktunar. Það stóð heima – ég var bæði vaktaður á átti inni einhverja örlitla upphæð hjá KS,“ þannig skrifaði Sigurjón Þórðarson í gær.
„Ég vona svo sannarlega að ég fái áfram að versla í Skagfirðingabúð með reiðufé, þrátt fyrir þessa uppákomu, enda býður Skagfirðingabúð upp á fjölbreytt vöruúrval og góða þjónustu. Auðvitað er allur varinn góður í viðskiptum, en ég vona þó að þessar varúðarráðstafanir KS gagnvart viðskiptavinum, gangi ekki eins langt og tíðkaðist á ölstofunni Keisaranum, sem rekinn var við Hlemmtorg um árabil. Á Keisaranum var stundum gerð krafa um að þeir sem pöntuðu drykk, sýndu peninginn áður hellt var í glösin. Ég vona að þessar varúðarráðstafanir og vöktun viðskiptavina, endi ekki með því að gerð verði krafa um að fá að skoða ofan í veski viðskiptavina áður en þeim verði hleypt inn í búðina.“