- Advertisement -

Katrín vildi ekkert gera og vill það ekki enn

Það er verkefni sálfræðinga að kanna hvers vegna stjórnmálamenn í dag, ráðamenn, og aðrir eru áhugalausir um velferð aldraðra og öryrkja.

Björgvin Guðmundsson skrifar:

Þegar ég var formaður kjaranefndar FEB í Rvk átti ég fund með menntamálaráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur stjórnar Samfylkingar og VG,.

Ráðherrann var Katrín Jakobsdóttir. Ég fór fram á, að hún styddi kjarabætur eldri borgara, afnám skerðinga, sem þeir höfðu orðið fyrir. Hún vildi ekkert gera fyrir eldri borgara þá. Hún vill ekkert gera fyrir þá í dag!

Það er eilíft viðfangsefni samtaka aldraðra hvernig þau eigi að umgangast óvinveitta ráðamenn. Á að fara samninga- og sáttaleið að þeim eða eiga samtök aldraðra að beita hörku og leita aðstoðar verkalýðshreyfingar og annarra samtaka og eiga þau að fara í mál við ríkisvaldið?

Ég hef fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu, að ekkert kemur út úr fyrrnefndu leiðinni. Það er sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Fulltrúar þeirra allra tala fallega en gera ekkert sem gagn er í fyrir eldri borgara, ekki einu sinni fyrir þá lægst launuðu.

Það verður því að fara nýjar leiðir. Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, var formaður FEB í Rvk og raunar einnig formaður LEB. Hann átti miklar viðræður við þáverandi stjórnvöld,reyndi samningaleiðina, hélt marga fundi en afraksturinn var alger hungurlús. Ég gagnrýndi samkomulagið. Ólafur var ekki ánægður með það. En þrátt fyrir þetta var Ólafur góður baráttumaður eldri borgara, sem athugaði margt. M.a. athugaði hann framboð aldraðra.

Það er verkefni sálfræðinga að kanna hvers vegna stjórnmálamenn í dag, ráðamenn, og aðrir eru áhugalausir um velferð aldraðra og öryrkja og raunar að mínu mati óvinveittir öldruðum og öryrkjum. Ekki er unnt að afsaka það eingöngu með því að stjórnmálamenn í dag fylgist ekki með; viti ekki hvernig raunveruleg staða aldraðra og öryrkja er, ekki einu sinni hvernig staða þeirra lægst launuðu er. Það er vissulega partur af skýringunni.

Það verður að gera þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir kynni sér rækilega stöðu aldraðra og öryrkja. Nógu marga aðstoðarmenn hafa þeir og nógu góð laun. En aðrir vilja ekki bæta kjör aldraðra, telja að þeir eigi að sjá um, sig sjálfir. En það stenst ekki, það er samkvæmt lögum og stjórnarskrá er skylt að sjá til þess að aldraðir og sjúkir hafi nægilegt til framfærslu og stjórnarskráin segir að veita eigi aðstoð, ef þörf krefur.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: