Úlfar Hauksson skrifar:
Forsetakjör
Nú er sitthvað fjasað um opinbera stuðningsyfirlýsingu Víðis Reynissonar sviðsstjóra Almannavarna við einn forsetaframbjóðenda. Sumum finnst fullkomlega eðlilegt að embættismaður í hans hlutverki geri slíkt. Að hann sé í fullum rétti til að opinbera skoðanir sýnar líkt og hver annar Jón út í bæ. Vissulega má segja að það sé rétt… en… en… þó ekki. Sumar starfsstéttir búa nefnilega – stöðu sinnar vegna – við takmarkað opinbert mál- og skoðanafrelsi.
Einstaklingar sem ákveða að sinna opinberum embættisstörfum, kennslu ungmenna, dómarastöðum við dómstóla landsins, svo dæmi séu tekin, ákveða jafnframt að takmarka opinbert mál- og skoðanafrelsi sitt. Geta ekki sagt hvað sem er um hvern sem er hvenær sem er og hvar sem er.
Treysti viðkomandi sér ekki til þess að uppfylla þessi skilyrði á hann að finna sér annað starf. Yfirlýsing Víðis er kannski ekki embættisbrot en klárlega dómgreindarskortur. Víðir hefði átt að spyrja sig fyrir framan spegil – áður en hann lét vaða…. er við hæfi að maður í minni stöðu gefi út svona yfirlýsingu opinberlega … er ekki skynsamlegra – stöðu minnar vegna – að halda þessu bara út af fyrir mig og innan fjölskyldu og vina….?
Yfirlýsing Þórólfs er af svipuðum toga í ljósi sögulegrar nándar en hann er vissulega hættur opinberum störfum. Samt dómgreindarskortur. Erkidæmi um hvað Ísland er í raun vanþroskað land þegar kemur að allri stjórnsýslu og viðhorfum til hennar…. samanber viðbrögð fyrrverandi forsætisráðherra – og núverandi forsetaframbjóðenda – við einu ráðherrahneykslinu: „Það er ekki hefð fyrir því að ráðherrar segi af sér á Íslandi!“
Þetta lét nú forsætisráðherrann fyrrverandi hafa eftir sér fyrir framan alþjóð… ísköld eins og ekkert væri sjálfsagðara!