Fréttir

Katrín ver Kristján Þór

By Miðjan

November 19, 2019

Halldóra Mogensen gekk á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna stöðu Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það er vegna tengsla við Samherja og helsta eiganda fyrirtækisins, Þorsteins Más Baldvinssonar. Sem kunnugt er hefur Þorsteinn Már vikið tímabundið úr forstjórastólnum. Kristján Þór hefur sagt að hann muni segja sig frá málum sem hafa áhrif á Samherja. Margt fólk vill meina að svo til öll mál sjávarútvegsráðherra snerti Samherja, með einum eða öðrum hætti.

„Það sem kom fram í máli hæstvirts sjávarútvegsráðherra var að einstök mál og ákvarðanir hefðu ekki komið á hans borð sem vörðuðu þetta einstaka fyrirtæki. Þar af leiðandi hefði hann ekki sagt sig frá ákvörðunum. Hann hefur lýst þessu skýrt yfir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Katrín hefur meira að segja um þetta:

„Sömuleiðis hlýt ég að benda á það, eins og ég benti á þegar ég lýsti yfir trausti á hæstvirtan ráðherra, að ég hef ekki séð nein gögn, í þeim gögnum sem hafa verið birt, sem benda til þess að hæstvirtur ráðherra hafi haft nokkra vitneskju um það framferði sem birtist okkur í þessum gögnum.“

Og svona endar Katrín ræðu sína: „En afstaða mín grundvallast á því að ekkert kemur fram í þeim gögnum sem birt voru í síðustu viku um að hæstvirtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi haft nokkra vitneskju um þetta mál. Ég byggi afstöðu mína á því sem ég sé í gögnum. Það er raunar almennt mín afstaða að byggja afstöðu mína á því sem kemur fram í gögnum.“