„Okkur er það öllum í fersku minni að það var forgangsmál hinnar nýju ríkisstjórnar síðasta sumar að lækka veiðigjöldin um 6,5 milljarða á ársgrunni. Nú er lögð til viðbótarlækkun upp á nærri 2 milljarða sem auðvitað vekur ýmsar spurningar. Þó að útgerðin andmæli þessari lækkun liggur líka fyrir að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin sýndu á síðasta ári hagnað upp á 25 milljarða kr. og þeir sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta mál segja að stærstu sjávarútvegsfyrirtækin standi hæglega undir auknu veiðigjaldi.“.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir í þingræðu á árinu 2014 þá í stjórnarandstöðu. Hún gaf ekkert eftir í baráttunni við Bjarna Benediktsson og vilja hans til að lækka veiðigjöldin
Katrín sagði svo: „Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svörin þó að ég gefi ekki mikið fyrir það að hér sé teiknuð upp einhver hryllingsmynd af því að útgerðin sé farin 30 ár aftur í tímann og að við stefnum aftur í ríkisstyrktan sjávarútveg ef við aðhyllumst þá grundvallarskoðun að þeir sem fá réttinn til að nýta þessa sameiginlegu auðlind, sem er eign okkar allra, greiði fyrir hana sanngjörn gjöld.
Ég sagði það áður í fyrri spurningu minni að hér horfðum við upp á mjög mikinn arð, ekki síst í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum þar sem orðið hefur talsverð samþjöppun. Það kemur hér fram hjá þeim sérfræðingum sem hafa talað að þau eru fullfær um að greiða veiðigjöld. Á næsta ári mun auðlegðarskattur falla niður líka. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að framlengja hann ekki. Ég held að þetta snúist ekki bara um afkomu útgerðanna, ég held að þetta snúist um pólitík, um það mynstur sem þessi ríkisstjórn setur fram, um að lækka veiðigjöld, láta auðlegðarskattinn falla niður og auka á meðan álögur á námsmenn og sjúklinga. Það eru ekki lækkaðir skattar hér á tekjulægsta fólkið, þeir eru lækkaðir á tekjuhæsta fólkið.
Þetta snýst um pólitík og þess vegna spyr ég hæstvirtan fjármálaráðherra: Telur hann það virkilega ekki eftirsóknarvert markmið að auka hér jöfnuð og er ekki kominn tími til þess að ríkisstjórnin beiti sér frekar fyrir aðgerðum í þá veru í stað þess að auka hér misskiptingu beinlínis með sínum aðgerðum?“