- Advertisement -

Katrín svarar öryrkjum fullum hálsi

Plástur yfir gröft, segir formaður ÖBÍ og segir að fjármálaáætlunin muni búa til félagsleg vandamál.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er alls ekki sátt með viðbrögð formanns Öryrkjabandalagsins vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.

„Ég held að fólk verði bara að horfa á staðreyndirnar og tölurnar sem hér eru lagðar fram en ekki vitna í frasa um að þetta sé ávísun á fátækt og eymd, eins og hér sé beinlínis boðaður niðurskurður á framlögum til örorku þegar staðreyndin er sú að hér er verið að auka um sex milljarða á næsta ári,“ sagði hún í ræðustól Alþingis.

„Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun halda við og búa til félagsleg vandamál, frekar en að færa fram lausnir. Það er ekki verið að græða sár, sem við þurfum svo mjög á að halda, heldur er þetta eins og að setja plástur yfir gröft,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, um frumvarpið til fjármálaáætlunar.

Hún benti á að í frumvarpinu felist ekki aðgerðir til að tryggja öryrkjum mannsæmandi afkomu. „Það er gert ráð fyrir auknum framlögum vegna fjölgunar öryrkja, en ekki verið að ganga fram til að bæta afkomu þeirra sem núna þurfa að reiða sig á almannatryggingarnar.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þarna greiðir þær á. Katrín bendir á sex milljarða viðbótar framlag en Þuríður Harpa segir þá peninga fara til að mæta fjölgun í hópi öryrkja.

Katrínu þykir sem fyrr segir öryrkja bregðast við af ósanngirni í garð ríkisstjórnarinanr. „Ég hef líka kynnt mér viðbrögð Öryrkjabandalags Íslands við síðustu fjármálaáætlun. Þau voru töluvert hófstilltari þó að þar væri í raun gert ráð fyrir minni fjármunum til framfærslu örorkulífeyrisþega,“ sagði Katrín ennfremur.

Til stendur að fulltrúar ríkisstjórnarinnar og örykja hittist. „Þær viðræður sem við erum að fara í þurfa að vera raunhæfar. Við þurfum að gefa okkur góðan tíma til að móta nýtt kerfi sem verður öllum til heilla. Við þurfum hins vegar ekki að bíða eftir því samtali til að afnema óréttlátar skerðingar og tryggja fólki mannsæmandi afkomu. Það er hægt að gera það strax í dag.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: