- Advertisement -

Katrín svarar Birni Leví: Svona málflutningur rýrir traust á stjórnmálum

Katrín Jakobsdóttir skrifar:

Björn Leví Gunnarsson sagði mig ljúga í þingsal þegar ég sagði í ræðu á mánudag að samkvæmt upplýsingum úr Tekjusögunni, gagnagrunni sem stjórnvöld hafa sett upp og birt og inniheldur upplýsingar um ráðstöfunartekjur Íslendinga frá 1991 til 2018, að ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til fjármagnstekna jukust hlutfallslega mest hjá neðstu tekjutíundinni og minnkuðu hjá efstu tekjutíundinni á árinu 2018.

Frá þessu var greint í frétt á vef RÚV í dag en samkvæmt henni taldi þingmaðurinn þetta vera lygar því ég hefði ekki sett þetta í samhengi við þróun ráðstöfunartekna frá tíunda áratug síðustu aldar. En hvað sagði ég: Jú, að teknu tilliti til fjármagnstekna (sem sagt að þeim meðtöldum enda eru fjármagnstekjur tekjur) þá jukust ráðstöfunartekjur mest hjá neðstu tekjutíundinni og minnkuðu hjá efstu tekjutíundinni (sem vissulega er með meiri fjármagnstekjur en aðrar tíundir) á árinu 2018. Það er staðreynd sem ég sé ekki (samkvæmt frétt RÚV) að þingmaðurinn hafi getað hrakið enda var ég ekki að bera neitt saman annað en árin 2017 og 2018.

Eins og áður segir þá eru fjármagnstekjur líka tekjur og í 10. tekjutíundinni eru þær stór hluti tekna.

Tökum dæmi fyrir árið 2018. Ráðstöfunartekjur hjóna og sambúðarfólks á vinnualdri í lægstu tekjutíund með 1-2 börn námu 502 þúsund krónum á mánuði án fjármagnstekna á árinu 2017 en voru 21 þúsund krónum hærri á árinu 2018. Hjón og sambúðarfólk í 5. tekjutíund voru með 804 þúsund krónur á mánuði í ráðstöfunartekjur árið 2017 en 19 þúsund krónum hærri árið 2018. Í 10. tekjutíund voru hjón og sambúðarfólk með 1.610 þúsund krónur á mánuði árið 2017 en 15 þúsund krónum hærri árið 2018. Jöfnuður hefur því aukist á milli tekjutíunda hvort sem er í krónum eða prósentum.

Eins og áður segir þá eru fjármagnstekjur líka tekjur og í 10. tekjutíundinni eru þær stór hluti tekna. Með fjármagnstekjum hækkuðu ráðstöfunartekjur lægstu tekjutíundarinnar um 16 þúsund á árinu 2018 en ráðstöfunartekjur hæstu tekjutíundarinnar lækkuðu um 85 þúsund vegna lægri fjármagnstekna á því ári.

Eins og segir í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins eru vísbendingar um að vel hafi tekist að bæta og jafna kjör á árinu 2018. Í ljósi Lífskjarasamninganna, skattkerfisbreytinga og breytinga á bótakerfum má vænta frekari jöfnunar ráðstöfunartekna á árunum 2019 og 2020. Það er hins vegar ekki svo að staðan sé góð á öllum sviðum. Enn er mikið verk óunnið við að bæta og jafna kjör. Tekjusögunni er einmitt ætlað að sýna og vekja umræðu um hvar við getum staðið okkur betur.

Það er dapurlegur málflutningur að saka aðra um lygar vegna þess að menn eru ekki sáttir við að heyra fréttir um aukinn jöfnuð á árinu 2018. Svona málflutningur rýrir traust á stjórnmálum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: