- Advertisement -

Katrín situr í skjóli svikinna loforða

Katrín Jakobsdóttir gegnir hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi.

„Því miður er staðan sú árið 2019 að við höfum forsætisráðherra sem situr í skjóli svikinna loforða, loforða sem hún gaf eigin kjósendum sem síst af öllu kusu hana til að gegna hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi, forsætisráðherra sem talar fjálglega um samráð við almenning við úrbætur á stjórnarskrá en hunsar þó frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár í nafni sátta og samráðs við Sjálfstæðisflokkinn, flokk sem ávallt hefur staðið gegn nýju stjórnarskránni, gert lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og lýðræðislegum vilja þjóðarinnar sem þar birtist.“

Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, í þingræðu, þegar talað var um stjórnsýslulög á Alþingi.

„Flokkarnir sem mynda ríkisstjórn Íslands í dag hafa haft mislangan tíma til að tryggja að farið verði að vilja þjóðarinnar um innleiðingu nýrrar stjórnarskrár en allir hafa þeir haft tækifæri til þess. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn völdu að stinga stjórnarskránni ofan í skúffu þegar þeir tóku við stjórnartaumunum árið 2013. Vinstrihreyfingin – grænt framboð valdi svo árið 2017 að mynda ríkisstjórn með þessum flokkum sem hafa sýnt það í verki að þeir standa í vegi fyrir kröfu þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála. Eflaust héldu margir að atkvæði til Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, atkvæði til hæstvirts forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur myndi leiða til þess að hún myndi beita sér fyrir því að lýðræðislegur vilji þjóðarinnar, stjórnarskrárgjafans okkar, yrði virtur,“ sagði Þórhildur Sunna.

Hún sagði einnig: „En því miður er staðan sú árið 2019 að meiri hluta þessa þings finnst ásættanlegt að geyma nýju stjórnarskrána áfram ofan í skúffu og semja frekar sín á milli um einstök ákvæði frumvarpsins.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: