Metnaður minn stóð til þess að unnt væri að efna til þverpólitísks samstarfs með aðkomu þjóðarinnar á þessu kjörtímabili, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna, enda er það algjörlega ljóst að sú mikla vinna sem hefur verið ráðist í undanfarin tólf ár hefur leitt í ljós bæði þörf og vilja til að breyta og bæta lýðveldisstjórnarskrána. Þess vegna tala ég um þetta mál sem ákveðið tækifæri fyrir Alþingi til þess að sýna að við ráðum við það verkefni að uppfæra grunnreglur samfélagsins í takt við tímana og að við séum í fær um að ná um það eins mikilli samstöðu og er unnt,“ sagði Katrín Jakobsdóttir þegar hún mælti fyrir frumvarpi sínu um breytingar á stjórnarskránni.
Staða Katrínar er sérstök. Aðrir flokkar fylgja henni ekki einu sinni samstarfsflokkarnir í hennar ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn berst ljóst og leynt gegn breytingum á stjórnarskránni og ber það helst fyrir sig að algjör samstaða verði að vera um þær breytingar sem gerðar verða á stjórnarskránni.
„Hér hefur reyndar verið töluvert talað um að ekki sé hægt að breyta stjórnarskrá nema um það sé algjör samstaða. Kannski var það reyndin í fortíðinni þar sem töluverð samstaða var oft um breytingar, þó ekki alltaf. Það er ekki algilt. Raunar held ég að þessi mál hafi þróast með þeim hætti að það sé kannski ekki raunsætt að telja að í þessum sal verði fullkomin samstaða um allar breytingar á stjórnarskrá. Samt hef ég þá trú, eftir að hafa átt töluvert marga fundi með formönnum og fulltrúum flokka á Alþingi á þessu kjörtímabili í vinnu sem ég tel að allir hafi sinnt af heilindum og heiðarleika, að það séu full efni til að ætla að það geti náðst samstaða um a.m.k. margar af þeim breytingum sem hér eru lagðar til,“ sagði Katrín.