Katrín Jakobsdóttir talaði um endurnýjun stjórnarskrárinnar á Alþingi í dag. Bjarni Benediktsson sagði hins vegar á fundi formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi að engin þörf sé á að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Áður hefur hún ekki talað þvert á það sem Bjarni hefur sagt og vill.
„Ég legg á það mjög mikla áherslu að við sem sitjum við þetta borð, formenn og fulltrúar stjórnmálaflokka á Alþingi, tökum þátt í þessari vinnu af fullri alvöru, skilum af okkur góðum tillögum um góðar breytingar á stjórnarskrá, og að um þær verði haft samráð við almenning en ekki endilega sama samráðið um ólíkar tillögur,“ sagði Katrín í þingræðunni í dag.
„En það er mikilvægt að við nýtum kjörtímabilið allt til starfans því að sagan sýnir okkur að hætt er við því að stjórnarskrárbreytingar eða tillögur að þeim sem kastað er inn í umræðuna á Alþingi á síðustu vikum fyrir kosningar nái ekki fram að ganga, m.a. vegna ágreinings um óskyld málefni,“ sagði hún.
Bjarni sagði, þegar hann var forsætisráðherra, að ekki væri til nein ný stjórnarskrá. Katrín ögrar honum, því dag sagði hún um þetta:
„Það skiptir hins vegar máli að við tökum mark á því sem spurt var um í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012, þ.e. hvort almenningur vildi byggja á þeim drögum sem stjórnlagaráð hafði skilað. Það skiptir máli að við höfum þær tillögur til hliðsjónar. En ég vil segja það hér að ég tel að stjórnmálin skuldi almenningi að gera breytingar á stjórnarskrá og hafi þar til hliðsjónar vinnu við undanfarinna ára. En til þess að þær breytingar gangi í gegn þarf Alþingi Íslendinga að samþykkja þær.“
Katrín sagð svo: „Þess vegna skiptir raunverulegu máli að ná sem breiðastri samstöðu um slíkar breytingar. Það sem skipta mun almenning hér á landi mestu í þessu máli eru raunverulegar breytingar til framtíðar en ekki upphrópanir nútíðarinnar.“