Fréttir

Katrín neitaði Sólveigu Önnu um fund

- segir Vilhjálmur Birgisson sem segir forsætisráðherra fara með rangt mál þegar hún segist eiga gott samráð við verkalýðshreyfinguna

By Miðjan

December 30, 2018

„Ég átta mig ekki á í hvaða hugarheimi forsætisráðherra er í, en hún sagði á Sprengisandi í morgun að samskipti við verkalýðshreyfinguna mikil og góð.“

Þetta eru orðrétt haft eftir Vilhjálmi Birgissyni varaforseta ASÍ.

„Þetta er kolrangt svo ekki sé fastar að orði kveðið og nægir að vitna í brot úr ályktun frá miðstjórn Alþýðusambands Íslands sem samþykkt var á fundi miðstjórnar 30. nóvember síðastliðinn en þar segir m.a.

„Ef aðgerða- og skilningsleysið sem hefur einkennt viðbrögð stjórnvalda heldur áfram er ljóst að erfitt mun reynast fyrir aðila vinnumarkaðarins að ganga frá nýjum kjarasamningi“.

Eitthvað stangast þessi orð forsætisráðherra um hið mikla og góðu samskipti við ályktun miðstjórnar ASÍ fyrir tæpum mánuði síðan,“ segir Vilhjálmur.

„Rétt er einnig að nefna að bæði VR og Starfsgreinasamband Íslands hafa lagt fram fyrir rúmum tveimur mánuðum ítarlega kröfugerð á hendur stjórnvöldum og það liggur fyrir að ekki eitt einasta samtal hefur verið á milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar hvað þessar kröfugerðir varðar. Ekki einn einasti fundur og kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði rennur út á miðnætti á morgun.“

Vilhjálmur segir að eina samtalið, sem ný forysta verkalýðshreyfingarinnar hefur átt við stjórnvöld, séu tveir fundir í ráðherrabústaðnum en á þeim fundum hafi ekkert samtal átt sér stað um kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar.

„Það er einnig rétt að upplýsa að formaður Eflingar- stéttarfélags sem falið var að eiga í samræðum við stjórnvöld af hálfu SGS var neitað fundi með forsætisráðherra fyrir rúmum mánuði síðan. Hvaða miklu og góðu samskipti er forsætisráðherra eiginlega að tala um þegar liggur fyrir að hún hefur hafnað fundi með formanni stærsta stéttarfélags verkafólks á Íslandi?“

Vilhjálmur segir að það liggi fyrir að bæði VR, og Verkalýðsfélag Akraness og Starfsgreinasamband Íslands geri kröfu um að tekið verði á okurvöxtum, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu.

„En eins og allir vita er alþýða þessa lands og íslensk heimili að greiða 3% hærri raunvexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við erum einnig eina þjóðin sem við berum okkur saman við sem erum með verðtryggð húsnæðislán og bara í síðasta mánuði hækkuðu verðtryggðarskuldir heimilanna um 12 milljarða og 60 milljarða þegar horft er 12 mánuði aftur í tímann.“