Fréttir

Katrín man ekki ræðu Bjarna Ben

By Miðjan

April 29, 2019

„Ég þakka háttvirtum þingmanni Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að rifja upp ræðu hæstvirts fjármála- og efnahagsráðherra. Nú er ég greinilega ekki svona þéttur aðdáandi hæstvirts fjármála- og efnahagsráðherra þar sem ég man ekki ræðuna, ólíkt háttvirtum þingmanni, en hún hefur vafalaust verið eftirminnileg,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð hafði spurt Katrín hvort hún gæti komið að gagni til þess að Bjarni fylgdi eftir skoðun sinni, sem hann sagði í ræðunni sem Katrín man ekki eftir.

Katrín kaus að láta Sigmund Davíð ekkert eiga inni hjá sér

„Það sem er umdeildast og það sem fyrirvararnir sem háttvirtur þingmaður gerir hér að umtalsefni snúast um varðar tengingu við raforkukerfi Evrópu. Hér er ekki aðeins búið að setja fyrirvara við sjálfa þingsályktunina eins og ég fór yfir áðan og vitnaði þar til Stefáns Más Stefánssonar, sem háttvirtur þingmaður telur ekki ástæðu til að taka mark á í ljósi sögunnar ef ég á að meta orð háttvirts þingmanns þannig, heldur er líka búið að leggja fram frumvarp sem felur það í sér að sæstrengur verði ekki lagður til Íslands nema með samþykki Alþingis. Og það er töluvert önnur stefna en háttvirtur þingmaður stóð sjálfur fyrir þegar hann fór til Bretlands og undirritaði sérstaka (Hér greip Sigmundur Davíð fram í fyrir ráðherra og sagði: „Það er rangt“.) viljayfirlýsingu um sæstreng með forsætisráðherra Bretlands á þeim tíma. Ég er á leiðinni til Bretlands, ég ætla ekki að undirskrifa viljayfirlýsingu um sæstreng með núverandi forsætisráðherra Bretlands.“