„Mér finnst mikilvægt að hér á landi sé starfandi flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi, sem sé starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Mér finnst mikilvægt að hér sé til staðar flugfélag sem getur gegnt lykilhlutverki í að endurreisa ferðaþjónustu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í dag.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir átti í orðastað við Katrínu.
Þórhildur Sunna: „Hæstvirtur ráðherra segir að henni finnist mikilvægt að slíkar deilur leysist við samningaborðið. En ég spyr hæstvirtan ráðherra: Er sama hvernig það er gert? Skiptir engu máli hvernig samningum var náð, hvaða aðferðum var beitt. Ég heyrði ráðherrann segja rétt í þessu að afstaða ríkisstjórnarinnar birtist í verkum hennar og verk ríkisstjórnarinnar birtast mér þannig að Icelandair hafi tekist að spara sér fé með bolabrögðum og árás á grunnstoðir vinnuréttar á Íslandi. Fyrirtækið er verðlaunað með ríkisábyrgð. Þannig horfir þetta við mér. Eða hvernig túlkar hæstvirtur ráðherra það að reka allar flugfreyjur og hóta því að semja við eitthvert ótilgreint stéttarfélag í staðinn og láta flugmenn jafnvel ganga í þeirra störf til að ná árangri í stéttabaráttu? Finnst henni það ásættanlegt? Finnst henni það vera ásættanleg aðferðafræði við samningaborðið? Er það eitthvað sem á að verðlauna með ríkisstuðningi?“
Katrín svaraði: „Já, ég er þeirrar skoðunar að slíkar deilur eigi að leysa við samningaborðið. Mér fannst það mjög jákvætt að þessi deila leystist við samningaborðið. Ef háttvirtur þingmaður er ósammála því er það hennar mál. En já, mér finnst eðlilegt að vinnudeilur leysist við samningaborðið og að báðir aðilar eigi að leggja sitt af mörkum til að svo verði.“