Katrín hefur íhugað sína stöðu
- ætlar að sitja áfram. Svarar engu hvort ríkisstjórnarsamstarfið skaði Vinstri græn.
Staða Vinstri grænna eftir kosningarnar er slæm. Einhver kann að segja að hún sé ömurleg. Líf Magneudóttir tókst ekki að reka kosningabaráttuna áfram af krafti og þor. Ástæðan er augjós. Ákvörðun formannsins, Katrínar Jakobsdóttur og hennar helstu samherja innan flokksins, að ganga í bræðralag með Sjálfstæðisflokki, er stærri biti en flest fólk fær kyngt.
Katrín var afundin í sjónvarpi í nótt og kenndi um hversu margir væru í framboði, eða rétt um eitt prósent þjóðarinnar, og hversu mörg framboð voru í Reykjavík. Katrín finnur greinilega ekki ábyrgð hjá sjálfri sér á hvernig flokkurinn geldur ríkisstjórnarsamstarfsins.
Í Silfrinu, rétt í þessu, sagðist Katrín ekki ætla að gefast upp. Hún sagði afhroðið í Reykjavík vera sér vonbrigði. Hún tók undir spurningu Egil Helgasonar um hvort verið sé að refsa flokknum vegna stjórnarsamstarfsins.
Hún sagði vinstri flokka á Norðurlöndunum oft fá framboð vinstra megin við sig þegar þeir flokkar eru í ríkisstjórn. Katrín sagðist oft hugsa um eigin stöðu, en nú sé ekkert það uppi sem fær hana til að huga að afsögn.