Stjórnmál

Katrín gagnrýnir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn

By Miðjan

April 13, 2021

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vekur athygli á eðli þessarar kreppu og hvetur ríki til að koma á sérstökum samstöðugreiðslum þar sem vel stæð fyrirtæki og vellauðugir einstaklingar, sem beinlínis hagnast á kórónukreppunni, leggi tímabundið meira af mörkum til að létta undir með þeim sem verða fyrir mestu áhrifunum af kórónukreppunni og til að draga úr vaxandi ójöfnuði. Einhvers konar samstöðugreiðslur væru ekki einungis til þess fallnar að ýta undir samábyrgð á erfiðum tímum heldur einnig góð efnahagsstjórn,“ sagði Logi Einarsson á Alþingi í gær.

„Beinn stuðningur ríkisfjármála er einna minnstur á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Við höfum því bolmagn til að gera betur, en við höfum lítinn tíma. Aðgerð sem þessi ætti að falla vel í kramið hjá flokkum sem vilja berjast gegn ójöfnuði og því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra hvort henni lítist vel á þessar tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og ef svo er hvort hún áformi að ráðast í einhverjar slíkar aðgerðir og hvort hún telji það kannski pólitískt ómögulegt í núverandi ríkisstjórn,“ sagði Logi.

Eins og við var að búast svaraði Katrín ekki beint en sagði: „Háttvirtur þingmaður spyr síðan um hugmyndir um að skattleggja þá sem hafa í raun hagnast á kreppunni og það er eitthvað sem ég held að þurfi að skoða til lengri tíma, þ.e. að greina það í fyrsta lagi hverjir hafa hagnast á þessari stöðu. Síðan finnst mér að sjálfsögðu eðlilegt að farið verði yfir þá tekjuöflunarmöguleika sem þar eru fyrir hendi.“

Katrín sagði einnig: „Ég vil líka koma því á framfæri hér, vegna frétta af mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á aðgerðum íslenskra stjórnvalda, að til að byrja með eru útgjöld ríkisins til aðgerða ekki raunhæfur mælikvarði á eitt né neitt nema þau séu sett í samhengi við árangurinn af þeim aðgerðum. En við höfum gert athugasemd við þetta mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þau hafa til að mynda ekki tekið með í reikninginn fjárfestingarátak, framlög til námstækifæra, viðbótarhækkun atvinnuleysisbóta, styrki til rannsókna og þróunar o.s.frv., þannig að þessi mælikvarði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virðist byggður á mjög þröngri afmörkun sem er reyndar því miður allt of algengt þegar um er að ræða til að mynda eðli fjárfestinga og við áttum ágætissamtal um einmitt í umræðum um fjármálaáætlun.“