Umræðan Vinstri grænir héldu landsfund í gær. Katrín Jakobsdóttir formaður flokksins gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir sífellt tal um stöðugleika og sagði, að lítið gagn væri í stöðugleika, þegar allir innviðir væru sveltir, heilbrigðismálin, menntamálin, vegakerfið og velferðarkerfið.
Ég get bætt því við, að þrátt fyrir mikinn hagvöxt og tal um stöðugleika er kjörum aldraðra, öryrkja og láglaunafólks haldið niðri og hvaða gagn er þá í stöðugleika.
Ég er sammála Katrínu í þessu efni og tel, að það hafi verið tímabært að hún gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir þennan tvískinnung. En ég varð hins vegar fyrir vonbrigðum þegar hún einu sinni enn tók skýrt fram, að hún útilokaði ekki samstarf við neinn flokk.
Hvers vegna telur VG nauðsynlegt að halda því opnu að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum? Á það að vera einhver svipa á félagshyggjuflokkana; að ef félagshyggjuflokkarnir verði ekki þægir og góðir, hlaupi VG yfir til íhaldsins!
Eða er það að brjótast í VG, að það sé betra að fá fleiri ráðherrastóla í tveggja flokka stjórn með íhaldinu en að fá færri ráðherrastóla í félagshyggjustjórn? Vegast hér á hégómi og málefni?
VG tók það skýrt fram í fyrra, að ekki kæmi til greina að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hvað hefur breytst á einu ári? Er það vænlegra til fylgisöflunar að segjast vilja vinna með öllum?
Félagshyggjuflokkarnir eiga að vera trúir sinni stefnu. Þeir eiga að vinna að félagslegum lausnum. Þeir eiga að vinna að bættum kjörum láglaunafólks, aldraðra og öryrkja. Þeir eiga að vinna að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu, jafna skattbyrðina, létta sköttum af láglaunafólki, afnema skatta af lífeyri, hækka veiðigjöldin og nota peningana í heilbrigðiskerfið.
Ekkert af þessu vill Sjálfstæðisflokkurinn gera. Og hvers vegna vill þá VG fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Það mun ekki standa á Sjálfstæðisflokknum að lofa betri kjörum aldraðra og öryrkja og auknum framlögum til heilbrigðismála en flokkurinn mun ekki standa við neitt af því. Það þarf ekki að standa í slagsmálum við Sjálfstæðisflokkinn um þessa hluti, þegar félagshyggjuflokkarnir hafa meirihluta á alþingi.
Björgvin Guðmundsson.