Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Vegna þess að við birtum nú yfirlit yfir fundi í opnum dagbókum mun koma fram að ég hef átt fjöldamarga fundi með hagsmunavörðum í tíð minni sem forsætisráðherra og það er ekki óeðlilegt að það sé gert. Það er eðlilegt að leita eftir sjónarmiðum þar.“
Þetta sagði forsætisráðherra þegar hún mælti fyrir frumvarpi um varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.
„En hins vegar verður maður var við það að stundum eru slík samskipti sjálfkrafa álitin tortryggileg, það eru þau ekki,“ sagði Katrín. Hún vill ekki hindra störf hagsmunavarða; „…heldur að tryggja eins og mögulegt er að samskipti stjórnvalda við þá byggist á lögmætum og málefnalegum grunni, að upplýsingar um samskiptin séu aðgengilegar almenningi.“