„Enn eitt árið eykst gjáin milli örorkulífeyris og lágmarkslauna. Það er ömurlegt að við Íslendingar höfum ákveðið að sumum okkar skuli haldið í sárafátækt lífið á enda. Þó forsætisráðherra vilji ekki biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu, bíður það enn. Aðalfundur Öryrkjabandalagsins skorar á þjóðina að beita sér fyrir því að biðinni ljúki nú þegar. Það veit enginn hver þarf næst að reiða sig á smánarlegan örorkulífeyri.“
Þetta er ályktun sem samþykkt var með lófataki á aðalfundi Öryrkjabandalagsins.
„Í greinargerð með ályktuninni kemur fram að fáir eru á lágmarkslaunum til lengri tíma og atvinnuleysisbætur eiga eingöngu að vera skammtímaúrræði þar til fólk kemst aftur í vinnu. Engu að síður er öryrkjum gert að lifa langtímum saman, jafnvel alla ævi, á tekjum sem eru langtum lægri en bæði lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur. Á árinu 2008 skildu leiðir lágmarkslauna og óskerts örorkulífeyris. Í dag er örorkulífeyrir 70 þúsund kr. lægri en lágmarkslaun. Í því fjárlagafrumvarpi sem liggur nú fyrir Alþingi er enga breytingu að sjá og því mun bilið aukast enn eða í 86 þúsund kr. á mánuði á næsta ári.
Í umræðunni um stefnuræðu fyrrverandi forsætisráðherra í september 2017 sagði núverandi forsætisráðherra að ekki eigi að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Hún sagði ríkisstjórnina gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Katrín Jakobsdóttir hefur haft tvö ár til að standa við þessi orð sín. Fólk í fátækt bíður enn.
Ekkert um okkur án okkar!“