- Advertisement -

Katrín er með fimm aðstoðarmenn, tíu lögfræðinga og fimmtán sérfræðinga

Þar á meðal hefur fyrrum þingmönnum verið komið fyrir í stórum stöðum.

Ekki er nema von að þörf sé að byggja við Stjórnarráðshúsið, þar sem forsætisráðuneytið er jú til húsa. Starfsfólki þar hefur fjölgað mikið. Meira en tífaldast frá síðasta ráðuneyti Steingríms Hermannssonar 1988. Þá voru starfsmenn forsætisráðuneytisins fimm en er nú 54.

Hringbraut skrifar um þetta og hefur fyrir sér grein sem Björn Jón Bragason skrifaði og DV birti.

Í grein Björns Jóns kemur fram í fyrirsögn að Katrín Jakobsdóttir hafi hvorki meira né minna en fimm pólitíska aðstoðarmenn. „Björn Jón upplýsir að árið 1988 hafi verið fimmtán störf í forsætisráðuneytinu. Á tíma Jóhönnu Sigurðardóttur voru störfin orðin 35 en undir forsæti Katrínar eru störfin nú 54,“ segir Hringbraut.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sukkið í forsætisráðuneytinu þarfnast nánari athugunar við.

„Þar á meðal hefur fyrrum þingmönnum verið komið fyrir í stórum stöðum eins og rakið er í grein Björns Jóns.

Spyrja má hvort þessi útþensla standist skoðun. Fljótt á litið verður ekki séð að verkefni ráðuneytisins hafi meira en þrefaldast að umfangi á þessum tíma. Flest bendir til þess að um sóun og stjórnleysi sé að ræða.

Fram kemur að tíu manns hafa starfstitilinn lögfræðingur, fimmtán eru „sérfræðingar“, sex eru skrifstofustjórar og þannig mætti áfram telja. Mesta athygli vekur þó að einn ber titilinn „ritari þjóðaröryggisráðs“ sem kemur að jafnaði saman tvisvar á ári!

Hvaða rugl er hér á ferð? Þurfa skattgreiðendur ekki að fara að spyrja alvarlegra spurninga um sóun á æðstu stöðum? Svona háttsemi æðstu stjórnenda smitar niður allt kerfið og eykur enn frekar á skefjalausa eyðslu og þenslu í opinbera kerfinu.

Til að bæta gráu ofan á svart telja ráðamenn svo að það þurfi að byggja kontór yfir allt þetta starfslið inni á þröngri lóð stjórnarráðshússins gamla. Ætlunin er að troða 1.200 fermetra húsi inn á lóðina og eyðileggja ásýnd þessa fallega og merka húss.

Á sama tíma er mikið um laust skrifstofuhúsnæði í Kvosinni. Þetta er ekki boðlegt. Sukkið í forsætisráðuneytinu þarfnast nánari athugunar við.

Skattgreiðendur og kjósendur eiga ekki að taka þessu athugasemdalaust.

Hér hafa fjölmiðlar þarft verk að vinna!“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: