- Advertisement -

Katrín er kona og Bjarni er karl

Engum dylst að Katrín Jakobsdóttir er kona og að Bjarni Benediktsson sé karl. Katrín er forsætisráðherra og Bjarni er fjármálaráðherra. Sjálfstæðisflokkur Bjarna leggur til sextán þingmenn í ríkisstjórnina. Vinstri græn Katrínar eru nú með níu þingmenn. Allt eru þetta staðreyndir. Við erum mörg þeirrar skoðunar að hugsjónir og hagsmunir Sjálfstæðisflokksins séu til muna oftar ofan á. Að Bjarni hafi náð mun meiri árangri í stjórnarsamstarfinu en Katrín. Það hefur ekkert með kynferði þeirra að gera. Alls ekki neitt. Það að Katrín er kona veitir henni ekki friðhelgi.

Katrín er grunuð um að hafa leikið af sér strax í upphafi. Skoðum söguna.

Þegar Davíð Oddsson og Jón Baldvin Hannibalsson hittust á fyrsta fundi sínum í Viðey þegar þeir mynduðu Viðeyjarstjórninna 1991 komu þeir báðir undirbúnir til fundarins. Davíð vissi hvert var helsta mál Jóns Baldvins. Jón Baldvin vissi að sama skapi að Davíð var algjörlega ósammála sér. Þeir settust niður. Jón Baldvin byrjaði og sagði að áður en lengra yrði haldið vildi hann taka fram að umsókn að evrópska efnahagssvæðinu, EES, væri ófrávíkjanleg krafa síns og Alþýðuflokksins. Davíð horfði á Jón Baldvin. Þagði smástund. Svaraði síðan: „Yes sir.“ Jón Baldvin náði fram sinni helstu kröfu. Bara sisona. Hann gáði ekki að Davíð vissi að þetta myndi koma. Samþykkti og eftir það réði hann öllu hið minnsta því sem hann vildi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sagan endurtók sig árið 2017.

Sagan endurtók sig árið 2017. Bjarni Benediktsson vissi hug Katrínar. Hún var með mun minni þingflokk og vitað var að þar var ekki eining um fyrirhugað samstarf. Þegar hún sagði Bjarni að hún setti fram skilyrði um að hún yrði forsætisráðherra, samþykkti hann það samstundis. Rétt eins og Jón Baldvin árið 1991 fékk hún samþykkta sína stærstu og fyrstu kröfu. Og sagan hefur endurtekið sig.

Katrín hefur valdið mörgu vinstrisinnuðu fólki sárum vonbrigðum. Engu skiptir að hún er kona. Hver sem er forsætisráðherra verður að þola gagnrýni. Samstarfsfólk hennar verður líka að gera sér grein fyrir að allir forsætisráðherrar eru gagnrýndir. Bæði sanngjarnt og ósanngjarnt, að mati ráðherrans og samherja hans.

Ljósmynd: Stjórnarráðið.

Senn kemur að kosningum. Flokkarnir þurfa að sýna sérstöðu. Hver frá öðrum. Sjálfstæðisflokkurinn býr við að hafa tryggustu kjósendurna. Það er af þeim sem enn styðja flokkinn. Því getur flokkurinn leyft sér meira en hinir flokkarnir. Að auki eru allar líkur  á að Sjálfstæðisflokkurinn verði ráðandi afl í næstu ríkisstjórn. Ekki Vinstri græn, hvað þá Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn mun reyna á þolrif hinna flokkanna. Hann mun beita sínum harða stálhnefa í ríkisstjórninni.

Bjarni afhenti Karínu lyklana að stjórnarráðshúsinu. En völdin, afhenti hann þau?

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: