- Advertisement -

Katrín er í hlutverki öndunarvélar

Við horfum upp á varðhunda valdsins sameinast um að verja dómsmálaráðherra sem lýgur blákalt að þingi og þjóð.

„Nú höfum við forsætisráðherra sem situr í skjóli svikinna loforða, loforða sem hún gaf eigin kjósendum sem síst af öllu kusu hana til að gegna hlutverki öndunarvélar fyrir aðframkomið valdakerfi,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati í stjórnmálaumræðunni í kvöld. Hún kom víða við í ræðu sinni.

„Við sitjum enn og aftur uppi með fjármálaráðherra sem ítrekað sýnir að orð hans eru merkingarlaus, sem hylmir yfir óþægilegar upplýsingar um sig og sína og lýsir því yfir að samstarfssamningur ríkisstjórnarinnar sé engin siðferðisleg skuldbinding fyrir hann og hans flokk.

Við horfum upp á varðhunda valdsins sameinast um að verja dómsmálaráðherra sem lýgur blákalt að þingi og þjóð. „Ég braut engin lög,“ segir hún aftur og aftur … og aftur. En hún braut lög. Það er óumdeilt.

Við höfum félagsmálaráðherra sem lætur hagsmuni barna mæta afgangi og verðlaunar fúsk.

Og nánast daginn eftir sveitarstjórnarkosningar birtist svo sérstakur gjafapakki fyrir útgerðarmenn, milljarðapakki, á kostnað þjóðarinnar. Sá rándýri pakki mátti ekki sjást fyrir kosningar.

Ég get líka nefnt hvernig þingmenn hafa búið sér til skattfrjálsa kjarabót með margfalt hærri akstursgreiðslum en almennu launafólki bjóðast. Þegar virkt aðhald kemur upp um bixið mála menn eigin spillingu sem baráttu fyrir landsbyggðinni, skjóta sendiboðann og segja aðhaldið „komið út í tóma þvælu“.

Kæra landsfólk. Fólkinu sem fyllir þennan þingsal verður tíðrætt um að auka virðingu þingsins. Það harmar lítið traust til Alþingis og furðar sig á minnkandi kjörsókn. Það lýsir áhyggjum af síminnkandi stjórnmálaþátttöku ungs fólks. En hvar liggur skýringin? Hvernig er grafið undan virðingu og trausti Alþingis? Hvernig lamar maður áhuga fólks á að taka þátt í stjórnmálum? Hvernig er dregið úr vilja ungs fólks til að hafa áhrif á samfélag sitt? Valdið hefur notað til þess sömu ógeðfelldu uppskriftina í áraraðir.

Háttvirtur þingmaður Vilmundur Gylfason lýsti þessari aðferðafræði varðhunda valdsins eftirminnilega í tímamótaræðu sinni í nóvember 1982 er hann sagði, með leyfi forseta:

„Þeir munu ráðast að okkur með upphrópunum, með því að loka fjölmiðlunum. Þeir munu reyna að hæða okkur, reyna að láta allt líta út sem upphlaup eða gífuryrði.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: