Mannlíf

Katrín dúxar í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins

By Miðjan

April 24, 2021

Katrín Jakobsdóttir hefur annað hvort lokið námi við Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins eða lokið námi utan skóla. Katrín er afburða námsmaður. Dæmin sanna það.

Einkenni fyrrum nemenda skólans er að þvæla mál sem ætlunin er að deyða. Til dæmis stjórnarskrármál, kvótakerfið og fleira. Útlærðir segja jafna að málið sé gott í sjálfu sér, svo kemur hið fræga en. Það þurfi að skoða betur, gæta þess að vanda til, leita þurfi fordæma og svo framvegis og framvegis.

Hinn ágæti þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, hefur gert þetta best allra. Hingað til.

Nú hefur hann fengið samkeppni. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöld sagði vegna máls Samherja gegn starfsfólki Seðlabankans:

„Seðlabankinn hefur farið þess á leit við stjórnvöld að svokallað skaðleysisákvæði verði sett í frumvarp um gjaldeyrismál sem nú er til meðferðar á þingi. Forsætisráðherra segir hins vegar að málið þurfi að skoða heildstætt, ekki sé hægt að setja lög um einstaka stofnanir áður en slík skoðun hefur farið fram.“

„Að málið þurfi að skoða heildstætt…“ Getur varla verið betra.

Enn aukast flækjurnar. Að hætti Valhallar:

 „Slíkt ákvæði gæti auðvitað varðað fleiri en bara starfsmenn sem eru bara að sinna fjármálaeftirliti og gjaldeyriseftirliti. Við höfum auðvitað verið með mál hvað varðar heilbrigðisstarfsfólk, framlínufólk í heilbrigðisþjónustu þar sem einstaklingar hafa verið sóttir til saka vegna mistaka í starfi.“

Mér finnst ekki góður bragur á því að stórfyrirtæki séu í málaferlum við einstaka starfsmenn stofnana. En auðvitað er þessi saga orðin mjög löng og við þekkjum hana,“ sagði forsætisráðherra. Birgir hefði ekki getað gert betur

Seðlabankastjóri sagði í viðtali við Stundina að Íslandi hafi að miklu leyti verið stjórnað af hagsmunahópum sem fari sínu fram gegn veikum ríkisstofnunum.

Enn ein flækjan: „Katrín segir það ekki séríslenskt að hagsmunaaðilar beiti sér. Stjórnvöld hafi sett lög um skráningu hagsmunavarða og nú séu samskipti við hagsmunaaðila skráð sem ekki var gert áður.

„Því það skiptir gríðarlegu að það ríki mikið gagnsæi um þessi mál þannig að allir geti áttað sig á því hver samskipti stjórnvalda og hagsmunavarða eru í raun og veru og að sjálfsögðu geta þau líka bara verið eðlileg.“

Niðurstaðan er þessi. Málið er svo sem ágætt og brýnt. En gæta þarf að og svo framvegis.